26 maí

Átök

Mér finnst hvers konar átök alltaf svo hressandi. "Chick-2000" átakið hennar Gerðar er í fersku minni - en þá tók Gerður Jónsdóttir sig á, -bara svona almennt í lífinu minnir mig, fór að æfa sund og borða epli og svona. Þyrfti að finna mér gott nafn á tímabæru og almennu átaki sem kannski helst miðast við að auka hjá mér viljakraftinn... "Viljakraftur 2004" finnst mér líkjast "Vestfjarðarvíkingnum" helst til of mikið -Tillögur? Einhver?

Höfum verið boðuð í "foreldraviðtal" í leikskólanum....

24 maí

Göt

Heimkomin frá Kaupmannahöfn. Ekki mikið hlýrra hér en þar, eða minna rok. Þrjóskustu konur sem ég veit fara ekki í sokka frá miðjum apríl og þangað til í september því þá á að heita "sumar." Nú frjósa á þeim tærnar.
Hulda er farin að syngja "Bí, bí og blaka" -á mjög einlægan hátt með sínu eigin lagi...

18 maí

Bara ef......

ég vissi hvað ég vildi -þá væri nú brautin bein, en ekki beinin brotin (nei þetta er nú pínulítið bull en með sannleikskjarna "dauðans").

Hulda er farin að henda skóflum og hrífum niður af svölum. Hún klifrar sjálf upp í vagninn sinn og reynir að fara þaðan á eftir skóflunum sínum og hrífum. Hún fær að koma með mér fram á stigagang til að henda rusli en fær ekki að taka lyftuna og öskrar þá af öllum lífs- og sálarkröftum, einbeitt í ásetningi sínum. Nágrannarnir opna fram á gang til að athuga hver sé að misþyrma hverjum. Vill fá teygju í hárið bara til að taka hana strax úr aftur. Ég var orðin þreytt klukkan hálf tíu í morgun ...

Íslendingakórinn í Gautaborg ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og er nú að æfa hið stórkostlega kórverk "Hallelujah". Söng línuna "Hallelujah" svona fimmhundruð þúsund sinnum frá klukkan sjö til ellefu í gærkvöldi. -Kannski þess vegna sem ég er svona búin á því. En þetta hljómar nú ekki eins illa eins og lesendur gætu mögulega ímyndað sér og verður flutt á messu annan í Hvítasunnu. Íslendingakórinn í Gautaborg leynir á sér....

Fann frumsamið ljóð eftir Jóhönnu Cortes 8 ára í gömlum pappírum í Hagabíói í gær! Það var myndskreytt og fjallaði um Seppa.

16 maí

Helgin

Danski krónprinsinn gifti sig og Hulda fékk síðustu augntennurnar og var með 39 stiga hita svo ég gat með góðri samvisku horft á beina útsendingu. Sagði "sjáðu, þarna er prinsinn, þarna er prinsessan." Og "vá..." -felldi tár og hélt áfram að trúa á það góða í heiminum eftir hlaupin á þriðjudeginum. Svo byrjuðum við að raða öllum 700 myndunum í albúm og fylgdumst með því þegar Svíar unnu ekki Eurovision, (sem þeim finnst óskiljanlegt). Í kvöld verða svo vortónleikar íslenska kórsins í Gautaborg, "Hve bjart er veður..." Sumarveðrið fór heim til sín í síðustu viku en er nú blessunarlega komið til baka.

13 maí

Ég er sameinuðu þjóðirnar og....

Academic
You are Barbatine! You are well-read and love to
learn. You were gloomy in your youth and found nothing you liked to taste, but you're older now,
and have an incisive sense of humour that makes you and others smile.

Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla

12 maí

Einum fordómnum fátækari

Á hverjum mánudagsmorgni í vetur hef ég farið á fjölmennan starfsmannafund í vinnunni. Á þessum fundum er svo mikið blaður (að það er efni í annað blogg), og svo læðast inn á milli pappírar sem maður skrifar undir. Ég hef einbeitt mér að því að reyna að halda mér vakandi, sett persónuleg tímamet í að sitja kyrr undir þvaðri. Á einum þessara funda í vetur skrifaði ég undir eitt svona skjal í sakleysi mínu (örugglega nær kóma en lífi af leiðindum) sem reyndist hafa ófyrirséðar afleiðingar.

Á mánudagsmorgun vaknaði ég hressilega þegar mér var afhentur áprentaður stuttermabolur (merktur vinnustaðnum) og númer, til að næla í bolinn, og mér gert að mæta á tiltekinn stað til að hlaupa 5 kílómetra. Ég reyndi að malda í móinn og gera fólkinu skiljanlegt að þetta hlyti að vera einhver misskilningur því ég hef aldrei á ævinni hlaupið svo mikið sem 20 metra; "...-já, en þú skáðir þig! Þú sem ert svo ung?"

Ég sá fyrir mér að ég yrði í fámennum hópi ungra starfsmanna, merkt vinnustað sem gæti ekki annað en rekið mig fyrir að skríða nær dauða en lífi í mark mörgum klukkutímum eftir að hlaupið hæfist. En ég skráði mig og neyddist til að mæta örlögum mínum.

Þegar ég mætti svo á staðinn í gærkvöldi (með bolinn og númerið í bakpoka) heyrði ég skothvell og svo komu mörg þúsund Svíar hlaupandi á móti mér. Til að verða einfaldlega ekki troðin undir hljóp ég með straumnum. Og ég hljóp og hljóp og hljóp. Meðfram brautinni voru karlmenn og börn sem hrópuðu "heja, heja" (þá setti ég saman tvo og tvo og gerði mér grein fyrir að ég var þátttakandi einhvers konar kvennahlaupi) og svo voru litlar trommusveitir sem spiluðu hvetjandi laglínur meðfram brautinni með reglulegu millibili. Ég bara hélt áfram og táraðist af gleði og fór að trúa á það góða í heiminum.

Þegar ég kom í mark, 28 mínútum seinna fékk ég medalíu, djús og banana, kex, auglýsingabækling og Kellogs Special K og ákvað ég að gera þetta fljótt aftur. Ekki í dag samt, því ég get ekki gengið fyrir harðsperrum, -en kannski á morgun. "Heja,Heja."

10 maí

Mæðgur stinga foreldra sína af

Það er svo heitt í Gautaborg að maður verður ósjálfrátt smeykur um ástand heimsins. Fórum í göngutúr um Botaniska garðinn á laugardaginn. Hulda fylgdi okkur fyrstu skrefin eftir að henni var sleppt úr kerrunni, kvaddi okkur svo með fingurkossi og orðunum "bæ,bæ" og hljóp í burtu. Þetta er "nýjasta" -að stinga af.

Þegar ég var sjö ára fékk ég bráða-unglingaveiki. Þetta sumar árið 1985 fórum við í ferðalag til Vestmannaeyja. Í minningunni gistum við á frekar sjabbí stað sem mér þótti ekki samboðinn hugmynd minni um "hótel". Þegar mamma og pabbi ákváðu að drekka nesti í almenningsgarði tók steininn úr og ég þóttist ekki þekkja þau. Held ég hafi ekki einu sinni kvatt þau, ég bara gekk í burtu og vonaði að enginn í Vestmannaeyjum vissi að ég væri skyld þessu fólki. Þá fékk ég mér sæti á bekk og þóttist vera innfæddur Vestmannaeyingur.

07 maí

Nýr vinkill

Nú hefur stefnan tekið nýja beygju og allt í einu er alls óvíst hvort við sjáum Esjuna í ár. Heima verður enga vinnu að fá fyrir mig þetta sumarið og samkvæmt fréttum um stóraukið atvinnuleysi og botnlausa svartsýni í þessu 9 milljón manna landi er ég ekkert sérstaklega bjartsýn með að fá vinnu. Samt ætla ég að reyna.
Þegar ég var lítil stefndi ég á að verða prinsessa í Danmörku. Er það ekki laus staða? Haldiði að krónprinsinn og eiginkona hans séu til í að ættleiða mig? Ég gæti líka verið gjöf íslensku þjóðarinnar til brúðhjónanna...

05 maí

magn (aðar) myndir

Fyrir tæpum 3 árum keyptum við tölvumyndavél. Í morgun fór ég með myndirnar í framköllun. Þær eru 700. Ég sé því fram á margar langar stundir við að raða í albúm.... Maðurinn í framköllunarbúðinni veitir okkur svo góðan magnafslátt að við förum örugglega ekki aftur til hans fyrr en við verðum búin að taka 700 myndir í viðbót.

Mæli annars með þessari.

Dumbungur í Gautaborg en örugglega 20 stiga hiti. Þrumur í aðsigi?

04 maí

Hitt sem við gerðum

Svo höfum við dundað okkur við að breyta heimasíðu safnsins.

Bleikasta dúkkukerran í búðinni

Við Hulda fórum um helgina og keyptum okkur Barbiebleikustu dúkkukerruna sem var til í dótabúðinni. Svo fórum við yfir til nágrannanna og sóttum okkur ljóshærða dúkku sem hlær þegar maður þrýstir á takka á maganum á henni, settum hana í kerruna og höfum unað okkur síðan.

02 maí

gisting í Köben?

Veit einhver hvar er best að fá gistingu í Köben í 3 nætur í lok maí?Powered by Blogger