30 september

Anaegja

Nuna er eg mjog glod. Outskyranlega glod. Hormonar? Fostudagur? Body Pump? Of mikid kaffi?

28 september

FInnar og mjólk

Finnska mjólkursamlagið hefur staðið fyrir stífum "rannsóknum" á mjólkur- og ostaneyslu í 30 ár með þeim árangri að flestir fullorðnir Finnar drekka mjólk með matnum (það taka flestir tvö glös með matnum í hádeginu í vinnunni, -eitt með vatni og hitt með mjólk!). Þeir trúa því að neysla á mjólkurafurðum sé allra meina bót, styrki beinin etc. Á Íslandi hef ég séð því haldið fram að mjólkurdrykkja sé beinlínis skaðleg fullorðnu fólki því beinin verða stökk og brotna auðveldar ef maður fær of mikið kalk auk þess sem krabbameinsfrumum á víst að vaxa ásmegin ef maður drekkur mjólk etc.

Hins vegar hef ég oft rekist á greinar á Íslandi um svipaðar "rannsóknir" á rauðvíni þar sem niðurstaðan er sú að rauðvínsdrykkja styrki hjartað.

Öflug markaðssetning eða hvað?

24 september

Kort

Þegar maður kemur á nýjan stað, t.d. til Gautaborgar eða Helsinki og ætlar að vera lengur en eina viku þá "kortast" maður smám saman inn í samfélagið. Nú er ég komin með kort á vídeoleigunni, kort í vinnunni, kort á bókasafninu, kort í leikfimina og gæti kannski fengið mér strætókort. Af þessu er sögnin að "kortast" dregin. Ég get ekki lokað veskinu mínu. Jamm...

22 september

ýmislegt svona

Jæja. Þögnin í vinnunni var að vissu leyti rofin í dag þegar einn af þeim sem vinna í horninu fór með mér í mat í hádeginu. Hann staðfesti grun minn um að ákveðnir samstarfsfélagar eigi við samskiptaörðugleika að stríða. Svo mikla reyndar að tveir af sjö sem deila rýminu ákváðu að flytja sig út í horn og umkringja skrifborðin sín með hillum og skápum fyrir nokkrum mánuðum (þetta er næstum eins og í alvöru stríði). Ég sver að eftir þessa "erfið í samskiptum" reynslu mun ég aldrei ganga á háum hælum. Sorrý, svona hælaklikk-klikk hljóð minnir mig bara á andleg hryðjuverk. Ég treysti mér ekki til að útskýra þetta betur (og ég veit að það er ekki hægt að útskýra þetta verr).

Það gengur samt mjög vel í vinnunni. Síðustu 3 daga er ég búin að fletta í gegnum öll alþjóðleg tímarit um samtímalist sem gefin hafa verið út síðustu mánuði. Ég fékk fullt af hugmyndum, fann áhugaverðar greinar og er orðin algjör sérfræðingur í hver er hvað í þessum geira. Það er t.d. gaman að segja frá því að það hefur meira verið rætt um íslenska samtímalist en finnska síðustu mánuði(Bjarkar og Sigurrósar syndrómið breiðir úr sér á ólíklegustu svið).

Ætlaði kannski að sigla til Eistlands á laugardaginn en er eiginlega hætt við. Fer vonandi seinna. Over and out.

20 september

Nú er fyrsta body pump tíma mínum lokið. Ég missti ekki kúlið og svitnaði ekki neitt, ég skildi heldur ekki neitt. Efast samt þrátt fyrir allt að ég muni geta staðið í lappirnar né lyft fingri á morgun.

19 september

Finnsk sauna

Helsinki skoraði hærra en Havana og New York (og miklu hærra en Reykjavík) í þessari Guardian/Observer könnun þar sem Ísland var valið vinsælasta landið. Fór í mína fyrstu finnsku saunu ársins í dag á aðalbrautarstöðinni í miðbænum. Keypti mér kort hér og ég skokka því yfir brautarpöllunum. Þessi tæki eiga samt ekkert sérstaklega vel við mig og þess vegna ætla ég að reyna að fara aðallega í tímana, finnskt jóga og bodypump á finnsku. Ég skil ekki eitt aukatekið orð af því sem fólk segir. Ekki neitt.

Þessa vikuna er ég ein í íbúðinni og passa kisu. Susanne fór til Parísar að velja efni fyrir vor og sumarlínuna 2006.

16 september

Pólskir hugarburðirOriginally uploaded by helga_lara.
Ég dældi í mig verkjalyfjum í dag og sat dofin í vinnunni. Tók viðtal við pólska konu sem er svona týpískt hott sjott í þessum listasafnabransa. Ég er í missjóni á móti því sem hún býr til og stendur fyrir. Erfitt að brosa og halda áfram að kinka kolli og vera kurteis þegar mig langar bara að slökkva á upptökunni og standa upp og tala hana í kaf. Hún sagðist ekki hafa áhuga á sögu, ekki áhuga á því sem fólki finnst um verkin sín, ekki áhuga á að vita hvort neinn skilur það sem hún er að gera. Hún er bara með hausinn fullan af hugmyndum og skapar og skapar út í loftið. Hins vegar sagðist hún líta á list sína sem eins konar tungumál (sem hún talar þá alein við sjálfa sig) og sagðist svo helst vilja stefna á telepatíu svo annað fólk gæti fengið innsýn inn í hennar hugarheim. Yeha, don't we all.

p.s. myndin af Huldu hefur ekkert með blogg dagsins að gera. Hulda er á leiðinni til Íslands. Kemur á morgun, laugardag og verður í viku !!

15 september

Tehtaankatu, Helsinki


Tehtaankatu, Helsinki
Originally uploaded by helga_lara.
Gatan frá Tehtaankatu og niðrá sjó.

aftur veik

Var orðin lasin í eftirmiðdaginn í gær. Svaf í 13 tíma í nótt. Vaknaði, fór í bað, fékk mér djús og sofnaði aftur. Vaknaði um hálf þrjú eftir hádegi með hausverk dauðans. Hef síðan þá horft á gamla innlit útlit þætti á netinu með argandi kjánahroll. Auglýsingar um verslunarmannahelgina í Galtalæk 2005 verða svo fáránlegar í finnsku haustveðri.

13 september

Musavisa

Verð að byrja á því að þakka ótrúlega fín ráð frá Gunnari Hrafni og Brynju. Það getur ekki klikkað að setja á sig fjólubláan varalit, bjóða liðinu upp á lakkrís hlustandi á vasadiskó. Ég á eftir að nýta mér þetta, -finn það á mér.

Annars er það helst að frétta að yfirmaður minn er umskiptingur. Konan var svo hress í morgun að ég þorði að setjast niður með henni og drekka kaffi. Hún var búin að baka köku og allt. Bæ bæ suður-kórea, halló stuð.

Verkefnið mitt er nokkuð krefjandi. Þarf að taka tvö viðtöl í þessari viku, fara í gegnum fullt af tímaritum, mæta á finnska fundi og ýmislegt annað skemmtilegt. Það hvílir víst mikil leynd yfir sýningunni. Þátttakendalistinn er t.d. trúnaðarmál þangað til nær opnun dregur.... Það má hins vegar múta mér.

Hef farið á tvö "pub-quiz" (kallast"musavisa" (=músavísa) á finnsku). Hef staðið mig ömurlega. Hlakka samt til að fara á fleiri.

12 september

Erfiður mánudagur

Nú er ég orðin heittrúuð á stjörnuspeki. Samkvæmt astro.com verður morgundagurinn erfiður nema ég "segi sannleikann" og "haldi engu undan". Miðað við daginn í dag verður það ævintýralega erfitt því það segir enginn neitt í vinnunni. Á morgun fæ ég verkefnið mitt í hendur. Það tók mig tvo heila vinnudaga að raða fælum í möppur (venjulegt fólk hefði verið í 3-4 klst). Andrúmsloftið er svo rafmagnað á skrifstofunni og ég er orðin svo stressuð yfir því að ég sé ekki að gera nógu vel að það jaðrar við stemmningu í suður-kóreskum háskóla. Kannski ekki skrýtið að ég sé á taugum yfir framhaldinu... Þeim sem ég hef trúað fyrir þessu finnst ég vera aumingi, -þá breyttist ég sjálvirkt í aumingja. Ég nefni engin nöfn... Ég er sko ekki að mass'etta á háum hælum þessa dagana. Meira svona gufast áfram og lyppast niður þess á milli. Djö.

10 september

Contact information:

Heimilisfang:
c/o Manns
Tehtaankatu 10 c, 46
00140, Helsinki

sími: (00 358) 509271365

email: helga.lara@comhem.se

-Hætt að vera veik. Orðin hress. Skokkfær og allt. Ótrúlega falleg gönguleið meðfram sjónum hérna rétt hjá. Stór garður rétt hjá og fullt af skemmtilegum litlum skrítnum búðum. Gott veður. DVDið virkar í tölvunni og það er gott úrval af DVD myndum í búðinni niðri. Búin að kaupa mér SUDOKU bók. Er að lesa aðra góða bók... Konan sem ég leigi hjá er bæði góð og skemmtileg. Get ekki kvartað.

Það er enn óvíst hvernig tíma Huldu verður varið á Íslandi. Best að hafa samband við gudjon@mc2.chalmers.se ef fólk er með tillögur/hugmyndir. Ég veit að hún hlakkar mikið til að sjá ykkur.

08 september

Týpískt

veik.

Annars er það í fréttum að Hulda kemur til Íslands vikuna 17. - 24. september ! Nú eru þau feðgin flutt tímabundið í litla íbúð við skólann hans Gaua.

07 september

skömmuð með seiðing í mjóbakinu

Finnskar konur kalla ekki allt ömmu sína. Forseti Finnlands er kona, forstöðukona Kiasma er kona, Marimekko var stofnað af konum og yfirmaður minn er kona. Alveg ómálaðar með stálgrá augu og hörkusvip. Í opnu vinnurými þar sem sitja sjö einstaklingar er að mestu þögn allan daginn.

Ég hef vanist því af reynslu að vera ekkert að abbast of mikið upp á samstarfsfélaga mína á Íslandi. Maður vinnur sín verkefni og talar um allt annað en vinnuna við þá sem í kringum mann sitja. Það hefur enginn tíma til að setja sig inn í hvað næsti maður er að bauka. Nú er hún snorrabúð stekkur. Finnska yfirkonan vill vita hvað ég er að gera. Hún vill að ég komi til sín eftir hvert einasta snatt... -Hressandi. Hún skammaði mig meira að segja tvisvar í dag. Einu sinni fyrir að lesa yfir texta og segja henni ekki frá 2.stafsetningarvillum og í hitt skiptið fyrir að biðja mann um hjálp sem átti ekki að eyða tíma sínum í að hjálpa mér. -Hún er sko með svipu! Ég er eiginlega bara pínu glöð að henni sé ekki alveg sama því metnaðurinn er gífulegur. Eftir því sem á daginn leið varð ég stressaðari, varð allt of lengi að búa til einhver nafnspjöld og fáránlega lengi að merkja möppur, alltaf hrædd um að hún myndi koma og segja "excuse me Helga, you are not supposed to have the nametags like this!!". Á morgun er blaðamannafundur sem ég á að hjálpa til á. Vona að ég lendi ekki undir smásjá fleiri stálgrárra augna finnskra ofurkvenna.

Góðu fréttirnar eru þær að ég keypti mér 20 GB Mp3 spilara frá Sony. Vondu fréttirnar eru þær að ég er með seiðing í mjóbakinu.

06 september

Suomi, taka tvö

Vinkona mín segir að Finnar leysi öll sín vandamál í Stockmann. Stockmann er risastór verslunarkjarni, -hjarta og lungu miðbæjar Helsinki. Ég fer ekki út úr húsi öðruvísi en eiga leið þar um. Kiasma er mjög nálægt Stockmann og það tekur mig svona tuttugu mínútur að labba þangað að heiman.

Nú er ég komin með aðstöðu, (tölvu og skrifborð, lykla og nafnspjald) og vantar ekkert nema verkefni. (Ekki langt að skokka í Stockmann og skoða ipod og skó...). Yfirmaður minn lofaði að ég myndi hafa nóg að gera en vill ekki að ég byrji á verkefninu fyrr en í næstu viku. Þangað til á ég að lesa mér til og skoða sýningarnar. -Rosalega kalt á skrifstofunni. Strákurinn sem situr við hliðina á mér mætir alltaf með húfu (allan ársins hring) loftræstikerfið er svo öflugt.

Annars lofar haustið góðu, -spennandi verkefni, sveppatínsluferð upp í finnska sveit og nýjum ipod...

04 september

Suomi

Ég bý beint á móti rússneska sendiráðinu í Helsinki og við hliðina á því bandaríska. Þetta er víst mjög örugg gata. Margir löggubílar á ferðinni og svona. Ég hlakka til að skrifa meira um fyrsta daginn "í vinnunni" á morgun. Yfir og út.Powered by Blogger