27 janúar

frostþokugrill

Ég hugsa að það sé svona sirka -10 stiga frost í dag. Ekki nóg með það heldur liggur þykk þoka yfir borginni. Hvít, ísjökulköld frostþoka. Trúði ekki mínum eigin augum þegar ég gekk að Kapplandsgötunni áðan og sá barnafjölskyldur grilla pylsur í garðinum. Börnin fengu tómatsósu á pulsu í brauði og sitja í röð þegar þetta er skrifað í sannkallaðri sumarstemmningu úti í garði í 10 stiga frosti og þoku. Þetta er svo súrrealískt að ég stóðst ekki mátið og fékk mér brauð með osti og borðaði það í gluggakistunni sem snýr út að garðinum og glápti í forundran á þetta grillglaða fólk. Þau litu ekkert út fyrir að vera heimilislaus og voru of vel búin til að hafa týnt lyklunum að heimili sínu. Svo fattaði ég nottlega að í dag er haldið upp á 250 ára fæðingarafmæli Mozarts! Þau eru örugglega að halda upp á það... Til hamingju með daginn Mozart!

26 janúar

Lífsg-ÆÐI

Það tíðkast að ég fyllist ást á Gautaborg þegar nálgast brottför til Reykjavíkur. Það felast svo mikil lífsgæði í því að geta gengið út í búð og að mæta mörgum á leiðinni. Las í morgun grein í Gautaborgarpóstinum um vinningstillögu að blokkarþyrpingu sem á að rísa í borginni. Í hverri íbúð snýr að minnsta kosti eitt herbergi út að sameiginlegum garði, bílastæði eru öll í útjaðri þyrpingarinnar, hver stigagangur fær eigin matjurtargarð, í hverju húsi er eitt herbergi þar sem fólk getur farið með það sem það vill losa sig við og sömuleiðis tekið það sem það vill hirða. Almenningssamgöngur eru fyrsta flokks. Umhverfið er skipulagt með fólk í huga. Það er beinlínis fallegt. .

Las aðra grein fyrir nokkrum dögum þar sem bent er á að lög um tvö bílastæði við hverja íbúð í Reykjavík komi í veg fyrir þéttingu byggðar og mannvænlegt umhverfi. Hugsa að það sé mikið til í því. -Verður maður að fara á þing til að breyta lögum eða..?

Reykjavík er ekkert endilega ljót, hún er bara svo draugaleg í minningunni. Það er vont en venst nottlega alveg skuggalega fljótt..

21 janúar

nýtt og gamalt

Gunnhildur og Siggi eignuðust stelpu í byrjun vikunnar! Það er komin mynd af henni af Siggabloggi (sjá tengil hér til hliðar)...

Stelpan mín var með hita í byrjun vikunnar, svo hresstist hún. Nú er hún komin með gubbupest. Við erum því búnar að horfa á Madditt oftar en Astrid Lindgren gerði.

Súpervæsorinn tók mjög vel í ritgerðarefnið. Það virðast allir vera ánægðir með það sem ég hef talað við og að málinu koma. Ég verð illa svikin ef líf ykkar verður samt eftir að ég er búin að skila ritgerðinni af mér í maí... Jamm.

Snælduvitlaust veður í gær.

Rúm vika þangað til við Hulda flytjum heim.

16 janúar

Lífsgleði

Mjög glöð og sátt en hrædd til skiptis. Sannkallað lífslasagna. Fundur með nýjum súpervæsor í fyrramálið. Sá ku vera hvass...

09 janúar

listi

Ég hef alltaf verið mjög svag fyrir listum þar sem maður safnar því á lista sem maður hefur gert, lætur sig dreyma um að gera og ætlar aldrei að gera enda ætla ég að verða safnafræðingur þegar ég er orðin stór. Oddur frændi minn "kitlaði" mig óafvitandi. Ég bara stenst þetta ekki...

7 hlutir sem ég ætla að gera árið 2006: flytja til Íslands
klára mastersritgerðina mína
finna mér vinnu
fara í ferðalag um ísland
græða peninga
hlaupa 10 kílómetra
rétta úr bakinu og bretta upp ermarnar svona almennt

7 hlutir sem ég get ekki gert:
Unnið lengi í einu
gengið á háum hælum
búið til sushi
keyrt beinskiptan bíl
þolað panflautur og sekkjapípur eða vodka
tekið meiri námslán


7 hlutir sem ég get gert:
raðað og merkt
stífþeytt eggjahvítur með handþeytara
verið ein lengi
sofið til 9:30 marga daga í röð
lesið mikið og gleymt því öllu
gleymt almennt
talað skammlaust fjögur tungumál


7 atriði sem heilla mig við annað fólk:
Fólk sem hlustar
Þegar fólk sem hlustar talar
broslyndi
orðheppni
þolinmæði
hæfileikar almennt
hæfileikinn til að gera ævintýri úr litlu

7 staðir sem mig langar að fara til:
Hringinn í kringum ísland um sumar
Ísafjörður um sumar
Seyðisfjörður um sumar
Buenos Aires um vetur
Bergen any time
Höfðaborg um vetur
Eindhoven any time

7 orð eða setningar sem ég segi oft:
Þarftu að fara á klósettið?
Allt í lagi.
Já, þetta var óvart.
En fínt!
Nei ekki þetta/svona.
Jæja
Ertu svöng?


Svona listum tilheyrir að maður kitlar alla sem hann lesa...

04 janúar

samfelld ritgerðarskrif

Nú er tímabil samfelldra ritgerðaskrifa gengið í garð. Það þýðir stöðuga viðveru við tölvuna. Ég ætla ekki að líta af skjánum fyrr en í lok maí.

Meðvitað ákvað ég að strengja ekki áramótaheit fyrir þetta ár en mig grunar að það hafi óvart myndast áramótaheit í undirmeðvitundinni.

02 janúar

GLEÐILEGT NÝTT ÁR!

Gömlu nágrannarnir á Frigangsgötunni sögðust bara sjaldan hafa séð jafnmarga flugelda! Íslendingarnir voru hins vegar ekki mjög imponeraðir yfir skotgleðinni. Þetta var svona raketta hér, raketta þar... Áramótaskaupið er ekki á ruv.is en mér skilst að við höfum ekki misst af mjög miklu. Sól skín á fönn í Gautaborg svo maður fær ofbirtu í augun. Gleðilegt ár!Powered by Blogger