04 nóvember

Bækur trúarlegs efnis

Í nótt keyrði Gaui með samstarfsfélögum sínum á ráðstefnu til Linköping. Hann fór vopnaður tannbursta og plakati um transistora í brúnum flauelsbuxum sem hann viðurkenndi fyrir mér, þar sem ég lá í svefnrofunum, að sér þættu eiginlega ekki nógu fínar. Ermarnar á bláu peysunni sem hann var þá í ná honum niður á miðja framhandleggi. Hann hljóp um íbúðina þangað til hann fann svörtu rúllukragapeysuna og hljóp svo út í bíl. Þessi sena (mig var örugglega ekki að dreyma) styrkti mig í þeim einlæga ásetningi mínum að kaupa ný föt handa Gaua í náinni framtíð. Hulda fann tvo nýja fullorðinstannbursta í pakka og náði að opna pakkningarnar og bursta í sér tennurnar með þeim báðum áður en ég kom að henni. Hún gengur með og skríður en er svo yndislega "kvenlega" varkár að hún þorir ekki að ganga ein. Ég veit samt alveg að hún getur það því mér hefur tekist að plata hana til að standa ein og óstudd. Huldu finnst skemmtilegast að tala í síma - en hún verður alveg mállaus af ótta ef einhver svarar henni á hinni línunni...! Svo finnst henni líka afar skemmtilegt að tæta úr skúffum og bókaskápum. Það eru þá helst bækur með trúarlegu ívafi sem hún kippir hverri á eftir annarri úr skápum og hendir í gólfið. Konan sem á íbúðina var víst að læra einhverja trúarbragðafræði og skildi námsefnið eftir í neðstu hillunum í skápnum inni í stofu. Spurning hvort ég pakki þessum bókum niður í kassa. Annars er ég að huga að umsókn í framhaldsnám. Tilhugsunin um "motivation brevet" sem ég skrifaði og geymi í tölvunni sendir hroll niður bakið á mér. Ég get ekki skrifað eðlilegt "motivation brev". - En æ hver getur það svosem? Get talið heiðgul laufin á trjánum hérna fyrir utan með fingrum beggja handa. Það er hlýtt úti en myrkur er skollið á milli klukkan þrjú og fjögur þannig að það er alvöru vetrarstemmning.







Powered by Blogger