25 febrúar

Íbúðin

Við leigjum íbúðina sem við búum í með húsgögnum. Fyrst þegar ég kom hingað inn fannst mér spennandi að lifa "annars manns lífi" -sofa í annars manns rúmi og drekka úr annars manns kaffibolla, -lesa jafnvel bækurnar hans. Sérstaklega fannst mér spennandi að búa í íbúð praktíserandi búddista með fullt af bókum um austurlensk trúarbrögð. Ég hafði aðallega áhyggjur af því að við ættum eftir að drepa allar plönturnar þennan stutta tíma sem við áttum að fá að búa í íbúðinni.
Eftir eitt og hálft ár hafa flestar plöntur lifað okkur af (það drápust reyndar nokkrar þegar ég var á fæðingardeildinni....). Hins vegar hefur okkar líf smám saman náð yfirhöndinni og nú er geymslan svo full að Gaui fékk hláturskast þegar hann opnaði þangað inn í gærkvöldi. Svo þegar Hulda fékk æði fyrir að tæta úr hillum bjó ég til tvöfaldar raðir efst í bókahillurnar þar sem bækur um austurlensk trúarbrögð eru innst, -bakvið bækurnar okkar...

Annars er allt góðu gotti svona almennt.







Powered by Blogger