20 febrúar

Náðargáfan málskilningur

Svíar skilja upp til hópa ekki eitt aukatekið orð í íslensku berist hún þeim til eyrna. Velti því fyrir mér hvort áralöng dönskukennsla geri það að verkum að Íslendingar eiga auðveldara með að skilja sænsku. Maður reynir að minnsta kosti að nota eyrun og oft getur maður greint orðaskil með því að hafa íslenskuna til hliðsjónar. Dæmi: "Kom hit!" = "Komdu hingað!" eða "göra" = "gera".

Fóstran hennar Huldu sagðist ekki treysta sér til að vera ein með hana í gærmorgun vegna þess að hún skildi ekki tungumálið sem Hulda talar. Fóstran hélt að barnið talaði íslensku. Vá hvað ég er ánægð með hvað fólk heldur að dóttir mín sé bráðþroska og vel gefin! -og vá hvað mér finnst skrýtið að fólk átti sig ekki á því að að Hulda samkjaftar ekki á sínu eigin tungumáli sem enginn skilur (henni til ómældrar gremju).

Hef rekið mig á það að sænskir viðmælendur mínir eiga það til að píra augun þegar ég tjái mig af einskærri áreynslu við að reyna að skilja hvað ég segi. Ég hef reyndar heyrt fleiri Íslendinga lýsa furðu sinni yfir því hvað sænskumælandi fólk á erfitt með að skilja þá sem ekki tala nákvæmlega rétt mál.

-Og þá hlýtur mér að líða pínulítið eins og Huldu líður þegar hún er að reyna að segja okkur frá á sinni óskiljanlegu Huldísku...







Powered by Blogger