01 apríl

aprílgabb

Sat og beið eftir sporvagninum á leið í vinnuna og ákvað að hringja í Gaua út af einhverju. Allt í einu sagði Gaui mér að hann hefði frétt að það ætti að setja upp sýningu á verkum Ólafs Elíassonar í Konsthallen hérna í Gautaborg og að það væri grein um það í Aftonbladet í dag (það er sko algjört sorpblað). Ég stökk af stað og hljóp í sjoppuna hinum megin við sporvagnastöðina kastaði mér fremst í röðina með átta krónur og Aftonbladet og sagðist verða að flýta mér svo mikið (vagninn var alveg að koma). Svo hljóp ég aftur í skýlið og fór að fletta blaðinu.... sem var auðvitað bara fullt af sínu daglega sorpi og ekki eitt einasta orð um neina sýningu neins staðar. 1.apríl !

Annars tókst Gaua að plata alla þá sem hann umgengst dagsdaglega í dag með ótrúlega lúmskum hætti. Það er svo ólíkt honum að koma aftan að fólki svo að hver einasti hljóp apríl með sínum hætti. Yfirmaðurinn hans fékk skilaboð frá manni sem hann hefur verið að reyna að ná í marga mánuði og símanúmer til að hringja í.... (algjört gabb sem hefði getað endað illa).

Fékk þykka uppeldisbók sem síðbúna afmælisgjöf frá ma og pa. Bókin kemur sér mjög vel því fyrir liggur að breyta svefnvenjum Huldu... Meira um það síðar.







Powered by Blogger