12 maí

Einum fordómnum fátækari

Á hverjum mánudagsmorgni í vetur hef ég farið á fjölmennan starfsmannafund í vinnunni. Á þessum fundum er svo mikið blaður (að það er efni í annað blogg), og svo læðast inn á milli pappírar sem maður skrifar undir. Ég hef einbeitt mér að því að reyna að halda mér vakandi, sett persónuleg tímamet í að sitja kyrr undir þvaðri. Á einum þessara funda í vetur skrifaði ég undir eitt svona skjal í sakleysi mínu (örugglega nær kóma en lífi af leiðindum) sem reyndist hafa ófyrirséðar afleiðingar.

Á mánudagsmorgun vaknaði ég hressilega þegar mér var afhentur áprentaður stuttermabolur (merktur vinnustaðnum) og númer, til að næla í bolinn, og mér gert að mæta á tiltekinn stað til að hlaupa 5 kílómetra. Ég reyndi að malda í móinn og gera fólkinu skiljanlegt að þetta hlyti að vera einhver misskilningur því ég hef aldrei á ævinni hlaupið svo mikið sem 20 metra; "...-já, en þú skáðir þig! Þú sem ert svo ung?"

Ég sá fyrir mér að ég yrði í fámennum hópi ungra starfsmanna, merkt vinnustað sem gæti ekki annað en rekið mig fyrir að skríða nær dauða en lífi í mark mörgum klukkutímum eftir að hlaupið hæfist. En ég skráði mig og neyddist til að mæta örlögum mínum.

Þegar ég mætti svo á staðinn í gærkvöldi (með bolinn og númerið í bakpoka) heyrði ég skothvell og svo komu mörg þúsund Svíar hlaupandi á móti mér. Til að verða einfaldlega ekki troðin undir hljóp ég með straumnum. Og ég hljóp og hljóp og hljóp. Meðfram brautinni voru karlmenn og börn sem hrópuðu "heja, heja" (þá setti ég saman tvo og tvo og gerði mér grein fyrir að ég var þátttakandi einhvers konar kvennahlaupi) og svo voru litlar trommusveitir sem spiluðu hvetjandi laglínur meðfram brautinni með reglulegu millibili. Ég bara hélt áfram og táraðist af gleði og fór að trúa á það góða í heiminum.

Þegar ég kom í mark, 28 mínútum seinna fékk ég medalíu, djús og banana, kex, auglýsingabækling og Kellogs Special K og ákvað ég að gera þetta fljótt aftur. Ekki í dag samt, því ég get ekki gengið fyrir harðsperrum, -en kannski á morgun. "Heja,Heja."







Powered by Blogger