10 maí

Mæðgur stinga foreldra sína af

Það er svo heitt í Gautaborg að maður verður ósjálfrátt smeykur um ástand heimsins. Fórum í göngutúr um Botaniska garðinn á laugardaginn. Hulda fylgdi okkur fyrstu skrefin eftir að henni var sleppt úr kerrunni, kvaddi okkur svo með fingurkossi og orðunum "bæ,bæ" og hljóp í burtu. Þetta er "nýjasta" -að stinga af.

Þegar ég var sjö ára fékk ég bráða-unglingaveiki. Þetta sumar árið 1985 fórum við í ferðalag til Vestmannaeyja. Í minningunni gistum við á frekar sjabbí stað sem mér þótti ekki samboðinn hugmynd minni um "hótel". Þegar mamma og pabbi ákváðu að drekka nesti í almenningsgarði tók steininn úr og ég þóttist ekki þekkja þau. Held ég hafi ekki einu sinni kvatt þau, ég bara gekk í burtu og vonaði að enginn í Vestmannaeyjum vissi að ég væri skyld þessu fólki. Þá fékk ég mér sæti á bekk og þóttist vera innfæddur Vestmannaeyingur.







Powered by Blogger