25 febrúar

Lækningin

Í morgun fékk ég tíma hjá Johnny lækni á heilsugæslustöðinni Axess Akuten. Johnny skrifaði út sterkari sýklalyf handa mér en ég vissi að væru til. Ég held að allar bakteríur í kílómetra radíus frá mér, góðar og vondar, muni liggja í valnum.

En þessi heimsókn finnst mér bæði lærdómsrík og umhugsunarverð. Áður en ég fór skoðaði ég heimasíðu heilsugæslustöðvarinnar. Þar er hægt að fá miða í biðröð ef þú vilt hitta lækni samdægurs, og svo færðu sent SMS þegar röðin er komin að þér.

Svo þegar ég borgaði heimsóknina fékk ég viðhorfskönnun til útfyllingar, "því heilsugæslustöðin vill bæta þjónustu sína." Það er ekki alltaf sem læknar líta á sjúklinga sem "viðskiptavini" sína. Oft finnst mér eins og læknar líti á sjúklinga sem tímaþjófa, -eitthvað sem truflar allt hitt sem þeir verða að sinna...

Konan sem vísaði mér inn til læknisins gerði líka blóðmælingu á mér áður en að læknirinn kom. Þegar ég spurði hvort þetta væri rútína með alla sjúklinga sagði hún að ég hefði sagst vera með kvef mjög lengi þegar ég hringdi og pantaði tíma og þess vegna vildi hún mæla blóðið (ég hélt að þær upplýsingar hefðu farið innum eitt og útum hitt).

Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi raunverulega bætta þjónustu í heilsugæslu. Gef Axess Akuten douce points.







Powered by Blogger