07 september

skömmuð með seiðing í mjóbakinu

Finnskar konur kalla ekki allt ömmu sína. Forseti Finnlands er kona, forstöðukona Kiasma er kona, Marimekko var stofnað af konum og yfirmaður minn er kona. Alveg ómálaðar með stálgrá augu og hörkusvip. Í opnu vinnurými þar sem sitja sjö einstaklingar er að mestu þögn allan daginn.

Ég hef vanist því af reynslu að vera ekkert að abbast of mikið upp á samstarfsfélaga mína á Íslandi. Maður vinnur sín verkefni og talar um allt annað en vinnuna við þá sem í kringum mann sitja. Það hefur enginn tíma til að setja sig inn í hvað næsti maður er að bauka. Nú er hún snorrabúð stekkur. Finnska yfirkonan vill vita hvað ég er að gera. Hún vill að ég komi til sín eftir hvert einasta snatt... -Hressandi. Hún skammaði mig meira að segja tvisvar í dag. Einu sinni fyrir að lesa yfir texta og segja henni ekki frá 2.stafsetningarvillum og í hitt skiptið fyrir að biðja mann um hjálp sem átti ekki að eyða tíma sínum í að hjálpa mér. -Hún er sko með svipu! Ég er eiginlega bara pínu glöð að henni sé ekki alveg sama því metnaðurinn er gífulegur. Eftir því sem á daginn leið varð ég stressaðari, varð allt of lengi að búa til einhver nafnspjöld og fáránlega lengi að merkja möppur, alltaf hrædd um að hún myndi koma og segja "excuse me Helga, you are not supposed to have the nametags like this!!". Á morgun er blaðamannafundur sem ég á að hjálpa til á. Vona að ég lendi ekki undir smásjá fleiri stálgrárra augna finnskra ofurkvenna.

Góðu fréttirnar eru þær að ég keypti mér 20 GB Mp3 spilara frá Sony. Vondu fréttirnar eru þær að ég er með seiðing í mjóbakinu.







Powered by Blogger