24 október

Með grænmetislasagne á mánudegi

Allt í einu varð alveg svakalega kalt í Helsinki. Ég hef upplifað jafn skörp veðurbrigði (fyrir utan Ísland auðvitað).

Fór á vodka barinn sem Kaurismäki bræðurnir eiga á föstudaginn. Ég fékk eitt lítið staup með ódýrum rússneskum vodka en ég sver að þremur dögum síðar finn ég enn fyrir því. Það fer lítið fyrir þessum fræga bar, einn gulnaður miði í glugganum og dregið fyrir með rjómatertu-gluggatjöldum, neonljós á einum vegg og þrír ljótir rússneskir minjagripir á öðrum. Mér skildist að það væri bara seldur rússneskur vodka en ég sá fólk með bjór...

Sá framhaldsmyndina af Dogville, "Manderley" í pínulitlum sal í bíói í bakhúsi. Maðurinn á vélinni reif líka af miðunum (sem voru handskrifaðir nóta bene). Það þarf ekkert að fjölyrða um að þið verðið að sjá þessa mynd. Ég upplifi hana sem sterkari áróður gegn Íraksstríðinu en Farenheit 9/11, -en dæmi nú hver fyrir sig.

Grét yfir 50 ára afmæli Eurovision og kaus þýska lagið. Gaui hringdi frá Svíþjóð og sagði að húsið hefði titrað þegar Waterloo vann....







Powered by Blogger