31 október

helgi

Við fórum í bíó í dag og sáum þessa ákaflega sænsku mynd. Ég er nú ekki orðin sænskari en svo að mér hafi tekist að hlæja á öllum "réttu" stöðunum. Gat stundum bara ímyndað mér hvað leikararnir voru að segja. Samt góð mynd. Róleg helgi að baki. Klukkunni breytt í nótt svo nú er bara klukkutíma munur á Íslandi og Svíþjóð. Næstu fimm vikurnar verð ég á forvörslunámskeiði með skólanum og mun á hverjum morgni fara hingað. Og það getur ekki verið leiðinlegt !

28 október

part II

Við Hulda gengum aftur fram hjá svefnpokamanninum í morgun. Í þetta skipti snéri hann andlitinu að gangstéttinni og hraut. Hann lítur út eins og jólasveinninn, með rautt nef, hvítt skegg og sítt hvítt hár. Konurnar á leikskólanum gáfu honum kjúklingapottréttsafganga í gær. Það væsir ekki um hann.

Hulda fór í skóna sína í gær, náði sér í veski og kvaddi mig með orðunum "Bæ, bæ mamma, fluvvel, Isaland, heimsókn amma, sund, sjáumst á morgun!"

27 október

Halla höfði

Við Fjórðu langgötu í Gautaborg kennir ýmissa grasa. Þar er leikskólinn hennar Huldu (í kjallara í hárri blokk), lúxusíbúðir, saumastofa, bókabúð sem selur bara kommúnistaáróður, rammagerð, heilsugæslustöð fyrir heimilislausa, second hand fatabúð og lúxus hárgreiðslustofa. Þetta er sjarmerandi gata með gömlum múrsteinshúsum og það er gaman að ganga hana. Ég var ekkert hissa á manninum sem lagði sig við leikskólann hennar Huldu í nótt, greinilega smekkmaður. Hann læsti hjólinu sínu upp við ljósastaur. Fór úr skónum og breiddi úr svefnpokanum sínum undir svölunum á hæstu blokkinni við götuna. Nú snýr hann andlitinu að glugganum á stóra salnum í leikskólanum og hrýtur inn um gluggann...

25 október

Heim

Var að enda við að kaupa miðana heim. Gaui og Hulda koma fyrsta desember og verða til sjöunda janúar. Ég kem heim sextánda desember og fer samferða þeim tilbaka. Sumsé, íslensk jól.

24 október

...

ummm... langt síðan ég hef bloggað. Hvað skal segja? Fallegir haustlitir í Gautaborg. Mig langar stöðugt að taka laufin af trjánum og fara með þau heim til mín og hafa svona haustlitastemmningu inni í stofu allt árið um kring. Ég held ég hafi átt það til alla ævi að vilja taka fallega náttúru með mér heim.

Annars fátt og lítið svona...

19 október

Derrida

Mér fannst eins og ég þyrfti að mæta í jarðarför Jaques Derrida þegar ég frétti að hann væri dáinn. Ég hef ekki lesið staf eftir manninn en hann hefur verið alltumlykjandi frá því ég var í heimspekinni. Fékk svo laugardagsmoggann í dag og sá (mér til skelfingar reyndar) að allir sem penna geta valdið skrifa minningargreinar um manninn í lesbókina. Ó well...

Strákur í bekknum mínum frá Bogota í Kólombíu sem var notaður í auglýsingar fyrir Johnson & Johnson Baby Powder þegar hann var tveggja ára. Þessi börn í auglýsingunum stækka eins og við hin og fá jafnvel ístru og skegg !

16 október

"MIN"

Hulda litla er farin að láta vel í sér heyra ef henni líkar ekki eitthvað. Hún öskrar "MIN"! og "NEI"! með skipandi röddu ef önnur börn ætla yfir á hennar ósýnilega "yfirráðasvæði." Tveir nánustu leikfélagar hennar áttu afmæli í vikunni og í báðum afmælisveislunum slóst Hulda um pakkana. -Hvaðan ætli hún hafi þetta?????

08 október

Werrrí Gúdd..

Það er alveg morgunljóst að þessi þriggja tungumála lífsstíll (íslenska heima, enska í skólanum, sænska alls staðar annars staðar) gerir það að verkum að mér finnst ég vera orðin gömul. Talfærin eru orðin stíf. Hreimurinn er alveg ramm íslenskur alveg sama hvað ég tala og stundum frussa ég bara og vildi óska þess að fólk sæi hvað ég er að hugsa til að það haldi ekki að ég sé svona heimsk í alvörunni. Mér líður eins og gömlum manni í íslensku utanríkisþjónustunni.

06 október

Þvo

Mér finnst alveg óborganlega frábært að geta sett í sex þvottavélar í einu. Dýrka'ða.

05 október

RA ESPA SMÁSALI

Titill bloggsins er vísun í krossgátuæðið sem hefur gripið mig. Þegar ég byrja að eiga við krossgátu get ég ekki hætt. RA, RABARBARI og UNNA verða allt í einu lyklar að lausn sem tekur mig langan tíma að finna út úr... Verst að ég er alls ófær um að gera nokkurn skapaðan hlut á meðan.

02 október

Uppsala

Hlutirnir gerast hratt í Gautaborg. Vissi ekki fyrr en ég stóð á lestarstöðinni með miða til Uppsala.... -og lestin fer eftir tvo klukkutíma ! Hlakka til að hitta Stínu og Pálma og allan barnaskarann....Powered by Blogger