22 febrúar

Heimsborgarinn

Mér finnst ég aldrei vera meiri heimsborgari en þegar ég sit í strætó í Reykjavík og hlusta á ipodinn og les Fréttablaðið.

21 febrúar

Nýtt á vængnum

Jibbí kóla. Halli er farinn að blogga! Hann er nýr á vængnum.

20 febrúar

Tregi

Alveg eins og manni finnst ótrúlegt hvað það er dimmt á vetuna, bjart á sumrin, margir flugeldar um áramótin ár eftir ár er ég eins og fædd í gær þegar kemur að því að fara snemma að sofa á kvöldin. Það er alveg ótrúlega erfitt að vakna snemma þegar maður fer seint að sofa. Ég rifja þetta upp með sjálfri mér oftar en einu sinni í viku, -eins og ég ætti að vera hissa.

15 febrúar

Sofnað við Astrid

Astrid Lindgren les sögurnar sínar á geisladiski sem Hulda hlustar á þegar hún leggur sig á kvöldin. Heimilið er smám saman að breytast í sýningarhæfa einingu í Ikea verslun.

Það getur tekið upp undir fjörutíu mínútur fyrir barnið að klæða sig á morgnanna. Hún vill bara vera í mínípilsi og nærbol, alls ekki í útigalla og helst ekki í útiskóm. Kunningi minn stakk upp á að ég setti öll fötin hennar nema einar buxur og peysu í poka ofan í kjallara þannig að hún hefði ekkert val þangað til hún jafnar sig. Ég er alvarlega að íhuga þetta. Það er ekkert grín að vera þriggja ára og unglingaveik...

09 febrúar

Púsluspil

1. Mamma keypti fínustu notuðu kerruna sem ég fann á netinu. Hún er samasem ónotuð og hægt að keyra hana án þess að fórna bak-heilsunni.
2. Komin á netið og heimasíma á "nýja-gamla" heimilinu. Það er sannarlega stórkostlegt.
3. Mennirnir hjá Eimskip fundu restarnar af búslóðinni okkar í hinu fullkomna vöruhóteli eftir tveggja daga leit. Er komin með stól að sitja á. Framför.
4. Hulda "þrífst" á nýjum leikskóla.
5. Það er hægt að taka strætó í "nýju-gömlu" vinnuna. Það er léttir.

05 febrúar

Ikea

Ég vafraði um Ikea í jogginggalla um helgina. Held dauðahaldi í Svíþjóð í hjartanu og ber nöfnin á vörunum fram með sænskum hreim í huganum (alveg lofaði ég sjálfri mér að verða aldrei svona...). Eins gott að það var fátt til á lager af því sem mig langaði að kaupa. Ég neyðist til að fara aftur og aftur. Hjúkk. Fékk sting í hjartað í húsgagnaverslun (með x í nafninu) í kópavogi af því mér fannst ég vera komin of langt frá góðum hugsjónum og öllu því sem mér finnst "mysigt" og "trevligt".

Á einhver almennilega barnakerru til sölu?...

01 febrúar

komin

Við komum til Íslands í gær. Ég var búin að fá svo margar ofsafengnar martraðir um bílastæðahaf, umferðartafir og jeppa að mesta sjokkið dempaðist. Gekk með Huldu í kerru í gegnum miðbæinn í morgun í yndislegu veðri. Mér finnst Miðbær Reykjavíkur (að minnsta kosti fyrir neðan Hallgrímskirkju og að Öldugötu) fallegur. Við keyptum strætómiða. Mér var bent á að hringja í fréttaskot DV og fá fimmþúsundkall fyrir þá frétt. Við gætum notað fimmþúsundkallinn til að eiga upp í græna kortið.

Kom með úrklippur úr Sköna Hem og ætla að gera "mysigt".

Mig vantar ódýra (notaða) barnakerru með stillanlegu handfangi og körfu/neti undir sætinu. Ef einhver á svoleiðis til sölu eða veit um einhvern sem á svoleiðis til sölu má láta mig vita á kommentakerfinu eða senda tölvupóst á helga.lara.thorsteinsdottir(hjá)gmail.com








Powered by Blogger