29 september

Klástrófóbískt samfélag

Fer í fyrsta prófið á föstudaginn. Hef eytt tíma mínum á hinu stórkostlega gamla bókasafni KTH. Risastórt málverk eftir Carl Larson í lessalnum, húsið sjálft fallegt eins og skrín... -og lessalurinn alltaf yfirfullur af "ungu fólki" í misjöfnum erindagjörðum. Í dag sat ég milli tveggja líffræðinema sem köstuðu miðum á milli, -yfir mig- með "hvenær eigum við að fá okkur kaffi" og "gettu hvern ég hitti áðan"... Svo hringir farsími með reglulegu millibili og fólk VERÐUR að svara með "BÍDDU AÐEINS ÉG ER AÐ HLAUPA ÚT ÚR LESSALNUM" áður en það hleypur út úr lessalnum. Inn á milli setjast stífmálaðar ungar stelpur (einhverra hluta vegna, eiginlega alltaf stelpur) sem sofna sumar oní bækurnar sínar en aðrar eru greinilega meðvitaðar um að á þær er horft. Ég hef lúmskt gaman að þessu. Er að reyna að ákveða í hvaða fötum ég á að fara í næst á bókasafnið....

27 september

Frændi Stínu- og Pálmason

Við Hulda eignuðumst lítinn frænda í Uppsala í dag ! -Mjög fallegur haustdagur í Gautaborg, eðal fínn til að koma í heiminn...

24 september

Hér

Margt að gerast í skólanum, búið að stofna sérstakt nemendafélag sem hefur þegar haldið tvo fundi og ég hef aldrei á ævinni verið vitni að jafn faglegri fundarstjórnun eins og þar. Ég á margt ólært. Það er gaman.

19 september

Flottasta byggðarsafnið...

Í dag fórum við Gaui og Hulda á byggðarsafnið í Mölndal (eins og að fara í Hafarfjörð). Safnið er í gamalli sokkaverksmiðju og frekar lítið. Maður má ganga um og koma við alla munina á safninu. Hulda fór strax í dótið og hljóp um safnið með 60 ára gamlan dúkkuvagn, -safnverðinum til mikillar gleði ! Maður má fara í fötin sem eru til sýnis og spila á hljóðfærin, lesa bækurnar og gramsa ofan í öllum skúffum ! Þetta er pínulítið eins og að fara í Fríðu Frænku en munurinn liggur í því að annað er verslun en hitt er safn... -Hver munur er merktur númeri sem maður getur leitað að í tölvu til að fá frekari upplýsingar. Safnið hefur ekkert í geymslu heldur eru allir munirnir frammi en samt er allt á sínum stað. Mjög flott !!! Geymslan á Þorfinnsgötu 8 hefði getað orðið efni í flottasta byggðarsafnið á Íslandi...

17 september

Afi þinn var rugludallur...

Dýrin í Hálsaskógi. Mjög erfiður texti við flest lögin. Maður man laglínur og kannski fyrstu línuna í textanum svo ekki söguna meir. Þegar ég var fimm ára hélt ég að Bryndís Schram héti Grimbí Skran (hún stjórnaði Stundinni OKkar) og svo var ég í "hrúgunni" en ekki hrútur (fædd í lok mars). Anyways... Frá því ég var fimm ára og þangað til ég varð 27 ára hélt ég að í laginu "Dvel ég í draumahöll" (sem Klifurmús syngur fyrir refinn) væri sungið "Býr til hvíluvanga" en ekki "Dýr til hvílu ganga"... -Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað mér finnst erfitt að syngja þetta "rétt" fyrir Huldu.

16 september

hei, eitt sniðugt

Tate safnið í Englandi hvetur gesti sína til að skrifa sínar eigin athugasemdir við verkin sem sett verða upp á næstu sýningu. Ágætis leið til að skapa díalóg á þessum annars einstefnulega vettvangi. Skoða hér

14 september

hopp

aftur byrjuð í undarlegu hernaðarleikfiminni hérna úti. Mæti þrisvar í viku í hopp með sænskum konum. Tónlistin er örlítið verri en í fyrra. Ímyndið ykkur leikfimi í Hlíðarskóla þar sem íslenskar konur myndu hreyfa sig í takt við Eirík Hauksson og Stjórnina...

13 september

lagfæringar

Í dag er dimmt yfir Gautaborg og tímabært að kveikja á IKEA kertum.

Þó ég sé hætt í kórnum í bili fór ég samt í messu í gær til að hlusta á hann syngja. Það var bara mjög gaman. Þetta er nefni(n)lega(?) alls ekkert svo slæmur kór, Íslendingakórinn í Gautaborg.... Kirkjan sem hann flutti til í haust er ofsalega falleg og gerir gömlu kirkjuna sem við sungum í í fyrra að skátaheimili í samanburði.

nú ætti vængurinn að vera kominn á mannamál að nýju.

11 september

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

10 september

Good and bad

Bara svo ægilega glöð vegna þess að það er svo gaman í skólanum. Fórum í "field trip" á tvö mjög verulega vond söfn í dag og þess vegna höfðum við margt að tala um yfir djúpsteiktum osti á pólskum veitingastað í Gautaborg í kvöld. Ég hélt að "international" nám hlyti að vera eitthvað pínulítið hallærislegt. Það þarf í einlægni ekki að vera það. Yess yess yess.

09 september

Bananaflugur

Eldhúsið iðar af lífi. Hvert sem auga er litið sjást litlar bananaflugur svífa um. Þær eru ekki mikið stærri en rykkorn og fjölga sér álíka jafn hratt og ryk... Við verðum að hætta að borða mat til þess að losna við bananaflugurnar. Ég er stundum vopnuð vatnsbrúsa og reyni að hitta þær... -En svo drepast þær líka þegar fer að kólna.

Hlustum oft á "mús" (= Dýrin í Hálsaskógi). -Það nærir veiðieðlið.

08 september

Enn að fagna

Hulda á nafnadag í dag. Jibbí.

Enn tilefni til að fagna

Hulda á nafnadag í dag ásamt nafninu "Alma". Jibbí kóla. Gott veður og ég er búin að skrifa fyrstu ritgerðina mína fyrir skólann... . Hún fjallar um hvort Bretar (The British Museum) eigi að skila mununum sem þeir tóku frá minni máttar þjóðum fyrr á öldum (t.d. styttunum á Parthenon) eða ekki. Mér finnst að þeir eigi að gera það... -og það helst í gær. Meira síðar.

04 september

Enn gaman

Nú er skólinn loksins að skríða af stað og mesta "Bjarkar-æðið" er runnið af fólki. Gaui hefur verið á Ítalíu alla vikuna en ég greip tækifærið, keypti hillu í IKEA og snéri öllu í stofunni. Það verður nú gaman fyrir hann að koma heim...hehe

Bekkjarpartý í gærkvöldi. Stelpa í bekknum sem bauð öllum 30 og líka vinum sínum og ég hélt að við yrðum eins og sardínur í dós í stúdentaíbúð. En þessi vinkona mín reyndist leigja 200 fm íbúð með mikilli lofthæð þannig að það var nóg pláss fyrir 60 manns. Mjög skemmtilegt partý, dansað og allt.

Dásamlegt sumarveður þessa helgi, 25 stiga hiti og sól. Hulda kenndi mér að segja "mellanmål" sem þýðir "drekkutími".. Mér finnst það nú bara nokkuð vel af sér vikið.

02 september

Mynd af Huldu af blogginu hennar Stínu !!



Hulda fór að sofa klukkan ellefu í gærkvöldi og gat þá sagt "teggja" og "ammli". Rosalega var gaman í gær !!

01 september

Ammli

Í gær átti Halli bróðir minn 25 ára afmæli. Þegar hann hélt upp á 23 ára afmælið sitt kom Hulda í heiminn. Hún er sumsé tveggja ára í dag!!! Ég vaknaði klökk af hátíðleika og söng fyrir hana og setti hana í kjól undir regngallann og svo var henni fagnað sérstaklega á leikskólanum. Hún skilur ekkert í þessu umstangi en finnst afmælislagið fínt og biður um það: "mamma! meira amma" (amma=afmælislagið). Ætli við förum ekki á róló og borðum nammi í tilefni dagsins.







Powered by Blogger