29 mars

tonn af áli

Ég fer ekki ofan af því að eina leiðin til að koma í veg fyrir þessi álversskrímsli er að takmarka álnotkun eða endurvinna álið sem við eigum til. Sorpa býður okkur upp á að endurvinna allt álið sem til fellur á heimilinu, dósirnar og lokið af skyrinu, allan álpappír.... Öðruvísi búum við til sífellt aukna eftirspurn eftir nýju áli og drekkjum landinu í Norður Atlantshafið... Miðað við þetta er beinlínis óábyrgt að vera ekki með sérstaka ruslafötu undir ál undir eldhúsvaskinum.

27 mars

silfurlína

Lá í sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð um helgina. Sé ónýtt tækifæri undir hverri þúfu... Ef allar hugmyndirnar komast á koppinn þarf að búa til miklu fleiri álver. -Verða þau þá knúin með kolaorkuverum í Kína?

21 mars

Beauty is pain

Dóttir mín viðurkenndi fyrir mér kjökrandi þar sem hún sat í kerrunni sinni á leið heim úr leikskólanum að svart væri bara ekki nógu flottur litur. Hún hélt því á vettlingunum sínum í fanginu á meðan frostið litaði litlu puttana bláa.

19 mars

Yndislegt er úti vor

Maíveður marga mánuði í röð...

15 mars

Varúð

Mjög óhugnalegar umræður um meindýr í Reykjavík í morgunútvarpinu. Gekk í gegnum bæinn og veitti minnstu hreyfingu athygli. Ætla að fá smið til að þétta hurðina í kjallaranum og stefni í að fá pípara til að athuga lagnirnar, -ætli Glitnir geti lánað mér?

09 mars

Neytendakóma

Um daginn fór ég í Bónus og ætlaði að kaupa í matinn. Ég er ekki rík og vil sjá hvað vörurnar í búðinni kosta. Það skiptir mig máli. Skemmst frá því að segja að af 50 mismunandi tegundum í kælinum voru ca. 4 verðmerktar. Ég valdi því í kerruna og fór að kassanum og sagði: "hvað kostar þetta?, en þetta?..." -konunni við kassann til lítillar ánægju og fólkinu í röðinni fyrir aftan mig til enn síðri ánægju. Uppgötvaði svo að á heimasíðu neytendasamtakanna er verið að kjósa "fyrirtæki ársins" og haldiði að Bónus sé ekki þar á lista?... Jamm. Eitt er að vera lágvöruverslun og annað að vera neytendavæn lágvöruverslun. Ég hélt að það væri lágmarksskylda að verðmerkja vörur í verslunum. Er það misskilningur?

07 mars

samstofna

Vissuð þið að saga opinberra safna og verslunarmiðstöðva er samofin? Söfnin voru fyrir karlmenn og verslunarmiðstöðvarnar fyrir konur (í mjög verulega grófum dráttum). Jamm. Með því að opna söfnin almenningi var vonast til að karlmenn myndu hætta að drekka brennivín. -Nú fer fólk á söfn gagngert til að drekka brennivín. Heillandi þróun, skemmtileg saga.

02 mars

Svifryk

Gult mengunarský liggur í beinni línu neðan úr bæ og upp á Höfða. Svifryksmengunin er örugglega hættulegri en fuglaflensan. Mengunin yfir Miklubraut drepur fuglana áður en þeir ná að smita okkur. Nagladekk á stórum bílum sem fara um borgina í góða veðrinu orsaka næstu bráðalungnabólgur og öndunarsjúkdóma...







Powered by Blogger