31 ágúst

meira blogg meira blogg

ég hef ekkert að segja. Gaui er farinn til Spagetti Bologna og við Hulda horfum á Bubbi byggir í sjónvarpinu - búnar að borða fullt af kvöldmat... Skóli og leikfimi, rigning og uppvask.

28 ágúst

9/11

Það er ennþá gaman í skólanum. Fórum með fornleifafræðingi í gær um yfirgefið svæði nálægt höfninni sem fornleifafræðingnum tókst að gæða svo miklu lífi með sögum sínum að hver einasta þúfa öðlaðist merkingu. Snilld. Snilld. Snilld.

Mér fannst svo gaman að ég vaknaði harðákveðin í að fara með Gaua og Huldu á staðinn en svo er svo mikil rigning að það er eiginlega ekki hundi út sigandi.

Sáum Farenheit9/11 í gærkvöldi. Ég fékk ekka og engdist í um í sætinu, -og mæli sumsé óhikað með myndinni. Nú þurfum við bara að passa upp á að skapa ekki markað fyrir þessar peningablóðsugur sem drepa saklaust fólk í nafni friðar. -Hjólum oftar!

26 ágúst

dagur 2

Bloggið í gær var eitthvað endasleppt og skrýtið. Ég ætlaði að bæta við það en gleymdi mér og hélt meira að segja að ég hefði ekki gefið neitt út. En allavega.... Svo var haldið partý í skólanum í gærkvöldi þar sem boðið var upp á mat og vín, mér fannst svo gaman að (og örugglega hinum líka) að við sátum þangað til Securitas rak okkur út. Fyrsti skóladagurinn byrjaði sumsé vel. Það sem mér finnst skemmtilegast er hvað sumir eru hláturmildir, það smitar alla hina á svo góðan hátt - maður getur ekki hætt...

Ég er í alþjóðlegu námi og þess vegna er töluð enska. Þeir sem ég hef hitt hingað til eru frá: N-Ameríku, S-Ameríku, S-Afríku, Finnlandi, Danmörku, Kamerún og Svíþjóð. En það eiga fleiri eftir að bætast í hópinn. Ég var pínu stressuð yfir að það yrði einhver "þjóðbúningastemmning" í hópnum og að allir ættu að syngja lag frá sínu landi og þannig... -en það var sem betur fer ekki.

Sumsé: stuð.

25 ágúst

And Björk of course....

Alltaf hressandi að heyra: "so you are from the same country as Bjork !" og "I really love sigurros!".... en ekki síst "I've always wanted to go to Iceland." -svona sem upphafssetningu í samræðum við útlendinga en ekki gaman að festast lengi í þessum gír hins vegar. Fyrsti skóladagurinn hálfnaður og - now Bjork is covered....

Hulda er öll í útbrotum en hitalaus og eldhress.

24 ágúst

las

Hulda vaknaði með hita og "bjakk" í hálsinum (hennar orð). -Koma ný börn á leikskólann -kemur hálsbólga og kvef (sbr. koma tímar -koma ráð).

Skólinn minn byrjar á morgun og Gaui er að fara til Ítalíu á ráðstefnu... -Má bjóða einhverjum í "heimsókn"...

23 ágúst

Til hliðsjónar:

390 milljarðar króna
Stofnunin Art Loss Register áætlar að listaverk, sem samtals séu metin á jafnvirði 390 milljarða króna, hafi lent í klónum á glæpamönnum á síðustu öld. Alþjóðalögreglan Interpol segir að listaverkaþjófnaður sé fjórða helsta glæpastarfsemin á eftir fíkniefnasölu, peningaþvætti og vopnasmygli. Meðal nýlegra listaverkarána, þar sem verkin hafa ekki fundist aftur, má nefna eftirfarandi:

19. maí 2004
Pompidou listasafnið tilkynnir að málverkið Nature Morte a la Charlotte, eftir Pablo Picasson, hafi horfið af verkstæði safnsins en verkið er metið á jafnvirði um 250 milljónir króna.

27. ágúst 2003
Þjófar, dulbúnir sem ferðamenn, yfirbuga vörð í Drumlanrig kastala í Skotlandi og hafa á brott með sér verk eftir Leonardo da Vinci, sem metið er á allt að 5,8 milljarða króna.

20. júní 2003
Þjófar grafa sig inn í ríkislistasafn Paragvæ og stela tugum málverka. Lögregla segir að um 2 mánuði hafi tekið að grafa göngin inn í safnið.

22. desember 2000
Þrír vopnaðir og grímuklæddir menn ræna tveimur málverkum eftir Renoir og einu verki eftir Rembrandt úr sænska ríkislistasafninu og komast undan á hraðbáti. Lögregla fann síðar aðra Renoir-myndina fyrir tilviljun en hinna málverkanna er enn saknað.

18. mars 1990
Tveir menn, dulbúnir sem lögreglumenn, fremja stærsta listaverkarán sögunnar í Isabella Stewart Gardner í Boston í Bandaríkjunum. Þeir yfirbuguðu verði og höfðu á brott með sér málverk eftir Rembrandt, Vermeer, Manet og Degas sem samtals voru metin á um 300 milljónir dala, jafnvirði nærri 22 milljarða króna.

Ópið

Ætla að nýta tækifærið á hinu fjölfarna interneti og hvetja þá sem tóku ópið og madonnuna ófrjálsri hendi að skila verkunum hið snarasta.

Annars er ég bara orðlaus.

20 ágúst

öryggi sjálfs

Er með eitt verkefni á prjónunum sem ég veit ekki alveg hvort ég eigi að senda frá mér vegna þess að ég er ekki "qualified". Ef ég væri strákur þá veit ég að ég myndi ekki hika.

Taka stelpur sjálfar sig svona hátíðlega? Eða er það bara ég?

16 ágúst

sikkel semester

Að hjóla í fríinu sínu heitir á sænsku "sikkel semester" (ekki skrifað svona). Við hjóluðum í algjöru blíðviðri sem leið liggur frá Fredrikshavn til Skagen á Norður Jótlandi. Stoppuðum á leiðinni til að synda í sjónum, borða nesti og svo á "Farm Fun" - dýra- og skemmtigarði einhvers uppgjafarbónda sem hefur breytt jörð sinni í sannkallaða fjölskylduparadís með geitum og tampólíni. Þar fékk Hulda meðal annars að gefa "meme" spagettí.

Gamli Skagen er næstum því óraunverulegur bær, öll húsin eru eins á litinn, með eins þaki og öll líta þau út fyrir að hafa verið máluð sama daginn,-í síðustu viku. Mér finnst gamli Skagen sameina Krossa á Snæfellsnesi og Melbæ við Sogaveg, því húsin minna á Melbæ, en náttúran stöndina við Snæfellsnes (langsóttur samanburður?). Ég er að gefa í skyn að þetta sé algjört "möst" fyrir suma.

Daginn eftir var svo mikið rok að hjálmurinn minn fauk út í veður og vind. Við fórum hingað og heilluðumst alveg. Svo fórum við út á "Grenen" sem er nyrsti oddi Jótlands. Það er hægt að ganga alla leið meðfram ströndinni og horfa á hvernig höfin mætast, Kattegat og Skagerrak, -mjög tilkomumikið og fallegt.

Frábært að taka svo Stena Line til Gautaborgar og hjóla heim á Frigangsgötuna eftir sikkelsemestrið...

12 ágúst

idyll

Ég er eiginlega alveg orðlaus í hitanum. Það hægist á manni og svo brennur maður á öxlunum, orkan fer í að kaupa djús og forðast flugurnar. Allt klístrað og svo límist sandur í klístrið. Yndislegt.

Nú æfum við okkur að hjóla svo mest við megum til að komast í þjálfun fyrir laugardaginn....

05 ágúst

og heim á ný

ljúft að finna pínulítið fyrir sumrinu í Gautaborg. 1) Hulda byrjaði strax í leikskólanum og hefur verið alsæl þar að leika sér ásamt einni annarri stelpu og þremur fóstrum þessa vikuna. Hún vinkar mér bless og kyssir út í loftið og vill ekkert endilega koma heim þegar ég sæki hana. 2)Heima sit ég stundum við tölvuna og gapi yfir tölvupóstum frá samnemendum mínum næsta vetur sem eru ýmist sjónvarpsþáttastjórnendur frá Suður Afríku eða Líffræðingar frá Sri Lanka eða Indíánar frá Iowa. Gaui er sannfærður um að það eigi einfaldlega að setja hópinn á safn. 3) Keypti mér hjól, barnastól á hjólið og hjálma til þess að geta hjólað frá Fredrikshöfn til Skagen um næstu helgi. Tökum Stena Line til Danmerkur og gistum eina nótt í strandbænum Skagen. 4)Ákvað kvöld að hitta Gunnhildi og Möggu og co. og keypti ferð til Stokkhólms á laugardaginn.

Þetta er endaslepptur póstur vegna þess að tölvuviðmótið er mér framandi eftir "gagngerar" endurbætur á tölvunni sem unnar voru (af sumum) á meðan restin af fjölskyldunni var á Íslandi.... Meira síðar.







Powered by Blogger