26 febrúar

Húsráð

Hugrún kenndi mér að ef maður vill ekki að barnið sitt baði sig upp úr Ajax eða Jif eitri eigi maður að þrífa baðið með sítrónu. Bara skera sítrónu í tvennt og nota vökvann á krómið og baðið. Ég var ekki fyrr búin að læra þetta en bekkjarsystir mín sagði mér að maður ætti að nota nælonsokka til að pússa skó. Og til að toppa þennan lista get ég sagt ykkur að það er best að nota dagblöð til að pússa glugga og spegla.

25 febrúar

Lækningin

Í morgun fékk ég tíma hjá Johnny lækni á heilsugæslustöðinni Axess Akuten. Johnny skrifaði út sterkari sýklalyf handa mér en ég vissi að væru til. Ég held að allar bakteríur í kílómetra radíus frá mér, góðar og vondar, muni liggja í valnum.

En þessi heimsókn finnst mér bæði lærdómsrík og umhugsunarverð. Áður en ég fór skoðaði ég heimasíðu heilsugæslustöðvarinnar. Þar er hægt að fá miða í biðröð ef þú vilt hitta lækni samdægurs, og svo færðu sent SMS þegar röðin er komin að þér.

Svo þegar ég borgaði heimsóknina fékk ég viðhorfskönnun til útfyllingar, "því heilsugæslustöðin vill bæta þjónustu sína." Það er ekki alltaf sem læknar líta á sjúklinga sem "viðskiptavini" sína. Oft finnst mér eins og læknar líti á sjúklinga sem tímaþjófa, -eitthvað sem truflar allt hitt sem þeir verða að sinna...

Konan sem vísaði mér inn til læknisins gerði líka blóðmælingu á mér áður en að læknirinn kom. Þegar ég spurði hvort þetta væri rútína með alla sjúklinga sagði hún að ég hefði sagst vera með kvef mjög lengi þegar ég hringdi og pantaði tíma og þess vegna vildi hún mæla blóðið (ég hélt að þær upplýsingar hefðu farið innum eitt og útum hitt).

Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi raunverulega bætta þjónustu í heilsugæslu. Gef Axess Akuten douce points.

23 febrúar

Óskir

Mig langar ósegjanlega mikið að fá vinnu á safni á Íslandi yfir sumarmánuðina. Mig langar líka að ganga Laugaveginn (þann lengri). Mest langar mig hins vegar að losna við þetta kvef og þennan hausverk. -Fór á Access Acuten í morgun til að hitta lækni en mér hefði ekki enst ævin ef ég hefði tekið mér stöðu í biðröðinni, mér batnaði líka svolítið við að sjá hvað sumir voru virkilega illa haldnir.

Hér blæs ísjökulköldum vindi sem bítur í kinnarnar. Brrrrr.....

21 febrúar

Jamm...

Vorlykt í Gautaborg. Fer til Trollhattan á morgun, það er Hollywood Svíþjóðar... Mun ekki leika í nýrri kvikmynd heldur skoða Innovatum, -Saab safnið (jibbíkóla). Allt að gerast á myndasíðunni góðu.

19 febrúar

Verð við óskum...

...frænkna minna og hef sett nýjar myndir á netið.

18 febrúar

Ljóshærður safnafræðingur í Reykjavík einn dag

Þegar það er gott veður í Reykjavík er vont veður í Gautaborg. Þetta eru náttúrulög. Ég veit upp á hár að sólin skín heima af því að hér rignir snjónum niður undir dökkgrárri lægð. Það væri sko ekki leiðinlegt að vera heima í dag, og sérstaklega ekki í kvöld því þá er safnanótt. Reykvíkingar eru snillingar í að skapa múgæsing í kringum menningarviðburði og ég elska það.

Í tilefni útborgunar frá LÍN fór ég í klippingu í morgun. Komin með hvorki meira né minna en þrjá litatóna í hárið, gull, ljóst og milliljóst. Tók þrjá klukkutíma að lita og klippa, sá tími finnst mér gefa til kynna hvað ég er orðin gömul. Las ÖLL tímaritin á stofunni og komst meðal annars að því að skortur á Omega-3 fitusýrum er rótin að öllum mínum vandamálum. Fór rakleitt heim og fékk mér lýsi og ætla að elda fiskisúpu í kvöld.

17 febrúar

Í naflanum á sjálfum sér....

Í vikunni sat ég í tíma um "holocost" söfn, -söfn og sögulega staði sem á einn eða annan hátt fjalla um seinni heimsstyrjöldina og afleiðingar hennar. Nema hvað.... Fyrirlesarinn dreifði ljósmyndum og við áttum að velja hvaða mynd okkur þótti lýsa útrýmingarstefnunni best. Ég sat á borði með nokkrum krökkum og við fórum eitthvað að tala saman og bera saman myndir. Stelpan við hliðina á mér er frá Kamerún í Afríku og hún hafði barasta ekkert um þetta að segja. Svo grunsamlega lítið reyndar að ég spurði hana hvort hún vissi eitthvað um seinni heimsstyrjöldina. Hún vissi ekki neitt. Hafði ekki heyrt á hana minnsta. Skrýtið. Ekki veit ég nokkurn skapaðann hlut um hvað kom fyrir í Rúwanda eða um ástandið í Súdan eða Búastríðið... Ég gaf mér bara að seinni heimsstyrjöldin væri naflinn í sögubókum heimsins. Svona er að vera alltaf með hugann í naflanum á sjálfum sér.

15 febrúar

nýtt

Tókuð þið eftir því að ég er búin að tengja myndaalbúm við síðuna?

14 febrúar

?

Hvað mynduð þið setja á stuttermabol til að selja útlendingum í Rammagerðinni? Iceland Express og Rammagerðin efna til hönnunarsamkeppni. Flugmiðar og fimmtíuþúsund kall í vellaun. Skila hugmyndum á pdf-formi á rammagerdin@rammagerdin.is fyrir 10. mars. Svona keppni hefur mig dreymt um lengi. Langar líka til að fá listamenn til að keppa um "millibilin" í sjónvarpinu -t.d. þegar fréttir byrja, skjáauglýsingar, þegar dagskrá kvöldins er sýnd, þegar auglýsingar eru kynntar og allt það. Grafíkin er svo niðurdrepandi....

Valentínus

Nú kyngir niður snjó í Gautaborg. Hulda fór á snjóþotu í leikskólann, en af því hvað gatan á leiðinni þangað er fjölfarin var búið að troða snjóinn í 1mm þykkt lag alsett smásteinum. Vorum lengi á leiðinni og svo var ég lengi að fóta mig í hálkunni á leiðinni í skólann... var tuttugu mínútum of sein í tíma sem verður ekki fyrr en í næstu viku - týpískt...

12 febrúar

Veikar

Nú er ég lasin.

10 febrúar

pössun

Núna sakna ég þess ógurlega að geta ekki sett Huldu í pössun til vina eða ættingja... (ég veit hins vegar að þið eruð ferlega fegin að þurfa ekki að hafa hana í pössun). Fátt jafn niðurdrepandi og að þurfa múta barnapíu til að sitja hérna inni í stofu og horfa á sjónvarpið á tímakaupi (og hún má taka kærastann sinn með) Ég heyrði alveg á röddinni hvað hún var innilega fúl út í sjálfa sig fyrir að hafa asnast til að segjast já við mig þegar ég talaði við hana í símann. Þótt það séu ekki mörg ár á milli okkar líður mér eins og ég sé tuttugu árum eldri en barnapían (já og svo er kók í ískápnum. Og ef þið viljið poppa...).

09 febrúar

Augun mín og augun þín ó þá...

ekki beint fögru steina. Hulda er með sýkingu og lítur út eins og eiturlyfjasjúklingur til augnanna. Búin að horfa á Siggu og "Mæju" í Söngvaborg II doldið oft síðan á mánudaginn...

08 febrúar

Danmörk?

Mér finnst skrýtið hvað lítið er minnst á Danmörku í Svíþjóð. Í dag voru t.d. kosningar þar en einu fréttirnar sem ég hef séð um kosningarnar eru íslenskar. Spez...

07 febrúar

Heaven

Við, (ásamt fleirum miðað við raðirnar í búðinni), vorkenndum mannrænda milljarðarmæringnum Fabian þvílíkt að ég sá mig tilneydda til að fara í fjölskyldufyrirtækið Siba og kaupa tölvumyndavél. Canon 3 milljón mega pixla eitthvað. Verandi ekki með Windows þýðir nýja myndavélin margra klukkustunda vinnu fyrir Gaua, sem þarf að finna út úr því hvaða forrit passar vélinni í Linux...

Drakk kaffibolla á 23ju hæð Scandia Hotels í hádeginu í dag. Heiðskýr himinn og útsýni í gegnum mengunarskýin yfir nærsveitir Gautaborgar. Verrí Bjútífúl.

05 febrúar

Gargandi snilld...?

Sáum heimildamyndina Gargandi snilld á Gautaborgarhátíðinni í gær en myndin fjallar um íslenska tónlist "í 1000" ár. Mest sýnt frá tónleikum íslenskra hljómsveita á Iceland Airwaves og Quarashi í Tokyo og Björk í New York og þannig.... Stutt viðtöl við þungaviktarmenn í bransanum inn á milli, Björk og Sjón og félaga. Áður en myndin byrjaði steig Steindór Andersen á svið og fór með rímur. Ég fékk gæsahúð. Djöfulsins kraftur. Það er engin minnimáttarkennd lengur, okkur finnst við bara æðisleg og myndin er ánægð með sig. Sáum að einhverjir gengu út í miðri mynd. Kannski fengu þeir nóg þegar Dorritt Moussajeff dansaði við Trabant á Bessastöðum. -Mér ofbauð þegar Jóhann sagði umhverfið mótaði mann á Íslandi, -eins og ef það væri nú alveg sérstakt og annars staðar í heiminum sé fólk ónæmt. Úffffff.... Ég finn ekki orð til að lýsa þessu, okkur finnst við bara ÆÐISLEG! og EINSTÖK! og það er hægt að velta sér upp úr því meðal vina en það er spurning hvort útlendingar (og þeim sem var ekki boðið í partýið) hafi þolinmæði til að horfa.

03 febrúar

Fundið fé !

Hildur og Krístín fóru í morgun eftir þriggja daga heimsókn í Gautaborg. Það er nú alveg lífsnauðsynlegt að eiga góðar vinkonur og nú finn ég hvað ég sakna þess að hafa þær ekki í kringum mig á hverjum degi...

Mannrændi nágranni okkar, Fabian Bengtsson fannst í morgun. Hann sat víst órakaður á bekk í Slottskogen þegar hann fannst. Þeir segja að engin fjárupphæð hafi verið reidd fram en ég held að það sé ekkert endilega satt.

Í fyrradag fór ég í bókabúðina sem er í húsinu á móti heimili Fabians Bengtssons. Búðin opnar ekki fyrr en tíu og ég var of snemma í því. Þegar ég snéri mér við til að labba tilbaka var mér litið í götuna og þar lá 100 kr seðill (=1000 kr íslenskar) og svo sá ég annan og svo annan... Ég stóð með 300 krónur í höndunum, þorði ekki að horfa lengur í götuna og beið eftir að einhver kæmi hlaupandi í áttina til mín en það kom enginn. Ég hélt að kannski væri þetta eitthvað "hided kamera" dæmi og beið smá lengur en ég sá engann. Svo hélt ég að kannski væri þetta lausnargjaldið fyrir Fabian... -Fékk pínu samviskubit yfir að ganga burtu með 300 krónurnar sem kannski vantaði uppá að lífi hans yrði þyrmt en æ.... Hvað átti ég að gera? Fórum í H&M og keyptum glingur fyrir peninginn.







Powered by Blogger