31 mars

íslenskt sumar

Eins og hendi væri veifað kom íslenska sumarið til Gautaborgar. Nemandi minn hélt að það væri 18 stiga hiti. Ég keypti mér ís og gamlar konur sáust með sólgleraugu. Ég man ekki hvernig snjór er og skil ekki hvernig ég gat verið í þessari þykku kápu í síðustu viku! Maður sér hvernig náttúran verður græn í beinni og öll kaffihúsin hafa stækkað um helming með "uteservering." Æði.

Hulda er hætt að segja "pabbi úti" í tíma og ótíma og er þess í stað farin að segja "pabbi inni" (ég óskaði sérstaklega eftir því að allir hvettu hana til að segja eitthvað í staðinn fyrir "pabbi úti" því Hulda var eins og biluð plata). Svo hefur orðið "bajs" bæst við orðaforðann. "Bajs" er sænska og þýðir kúkur.... Hulda segir næstum bara "bajs" þessa dagana. Allt er "bajs" bæði bækur og dót, fólk og hlutir. Hvað næst?

28 mars

Boðunardagur Maríu

Við mæðgur erum að koma úr messu hjá séra Ágústi í Skars Kirkju. Kórinn söng og Hulda tók þátt í barnamessunni. Anna og Eyjó voru líka. Gaman.

Vorið kom í dag og klukkan breyttist. Nú er aftur tveggja tíma munur á Svíþjóð og Íslandi.

Vorum með fólk í mat á föstudagskvöldið og líka í gærkvöldi. Nú er Gaui með stór gleraugu að reyna að leysa stífluna í eldhúsvaskinum. Það er víst smá sprengihætta ! Við höfum ekkert geta vaskað upp síðan í gær... Oj.

Keyptum lestarmiða til Uppsala í morgun. Förum á föstudaginn langa og komum til baka þriðja í páskum. Jibbí.

26 mars

Ný stefna

Síðasta laugardag ákvað ég að flytja á Þingvelli og nýta mér heimsendingarþjónustu hagkaup.is fyrir brýnustu nauðsynjar. Þessi ákvörðun var tekin í Kringlu Gautaborgar, sjálfu helvíti á jörðu, Nordstan. Það lítur út fyrir að það verði farin önnur ferð í Nordstan á morgun...

Við þurfum að fara að komast í smá náttúru. Sakna fjalla og útsýnis.

24 mars

Hommanef fyrir sóðaref

ted
Ted: Food & Wine Connoisseur

Which Member from "Hommanef fyrir sóðaref" is your type?
brought to you by Quizilla

23 mars

ammli

Gat næstum ekkert sofið í nótt. Vakna 27 ára. Finnst ekkert vera 20 ár síðan ég fékk bláa hjólið með hjálpardekkjunum. Man ennþá lyktina af því.

Deginum verður eytt í kennslu og svo í kvöld eigum við þvottavélarnar. Ástandið á heimilinu er orðið þannig að um helgina neyddist ég til að kaupa föt á Huldu. Vélarnar eru sko umsetnar.

Hitti námsráðgjafa í morgun sem ráðlagði mér eiginlega að sækja um nám í listasögu. Ég ætla að fara að ráðum hennar og sjá svo til. Kom líka við hjá safna-náms-konunni sem negldi síðasta naglann í kistu framhaldsnámsdraumsins.... Útihurðin var biluð svo ég varð að klifra út um gluggann hjá henni.

Erfitt að komast inn og erfitt að komast út.

22 mars

beib?

Ég á við þá erfiðu fötlun að stríða að ég get ómögulega gengið á háum hælum. Mig langar alveg að vera fín og kvenleg og vel til höfð og allt það.... en ég hef það einhvern veginn ekki í mér. Keypti sumsé ecco strigaskó fyrir afmælispeningana. Takk fyrir mig.

Hef komist að því að ég á vinkonur sem strauja fötin sín, buxur og boli... Mér finnst það alveg ótrúlegt því ég hélt í einlægni og einfeldni að slíkt tilheyrði liðnum tíma. Þarf greinilega að fara að líta betur í kringum mig.

21 mars

shlager

Svíar eru búnir að kjósa sitt lag til keppni í Evróvisjón. Konan sem syngur sigurlagið notaði míkrafónprikið eins og súlu á tilheyrandi súludansstað og var að mínu mati þjóð sinni til ósóma. Megi Ísland vinna Evróvisjón í ár. Annars höfum við eytt helginni í að breyta forsíðu heimasíðu safnsins. Mikil vinna. Mikið pikk. Fór í óvænta IKEA ferð á sunnudagskvöldi og náði að kaupa ýmsan óþarfa. Annars allt í góðu.

18 mars

Það er reyndar svolítið takmarkað hvað ég nenni að demba mér í þunglyndis og vonleysiskast vegna þess með skólann og ónýtu framtíðina og allt það - og það er vegna þess að það er 10 stiga hiti og sól. Svíar eiga í alveg sérstöku sambandi við sólina. Um leið og til hennar sést taka þeir sé frí frá vinnu og setjast á bekk með andlit í átt að sólu og hafa það "mysigt" (= notalegt = liggja í leti). GP (Gautaborgarpósturinn) er fullur af fréttum um vorkomuna héðan og þaðan ,, Lena Olson frá Backa sá fugl í garðinum sínum í gær. Það er ljóst að vorið er á næsta leiti....". Svo er reyndar hvert einasta auglýsingapláss í borginni nýtt undir upplýsingar um stórkostlega krabbameinsvá sem blasir við okkur í nánustu framtíð. Annar hver Svíi mun verða haldinn krabbameini eftir 25 ár eða eitthvað.... Iss þetta steindrepst allt maður.... (oj hvað ég er fúl eitthvað)....

16 mars

það sem ekki verður

Ég fékk nei frá háskólanum og fer ekki í framhaldsnám næsta vetur. Mikið er ég leið.

15 mars

eftir annir

Þessari sýningu tókst ekki að hneyksla neinn svo talist getur. Ullrika var ánægð vegna þess að henni finnst listamaðurinn leggja áhugaverðar spurningar með draslinu sínu. Og þá get ég ekki verið annað en ánægð. Ég hlýt að hvetja alla til að skoða verkin hans Þorvaldar Þorsteinssonar. Hann lét t.d. byggja turn í 60.000 manna þorpi í Finnlandi þaðan sem nöfn allra bæjarbúa voru lesin upphátt og þeim, hverjum fyrir sig, þakkað fyrir að styrkja listir (sem skattgreiðendur auðvitað). Svo hefur hann skýrt annað verk (sem er á sýningunni hérna í Gautaborg) "Allt sem ekki varð en hefði getað orðið" - við það verk getur maður endalaust bætt dóti, t.d. bíómiðum sem ekki hefur verið rifið af, fiðlu sem engin hefur æft sig á og trúlofunarhring sem enginn setti á fingur sér o.s.frv. -Æ ég er svo mikill "sökker" fyrir svona pælingum. Sofnaði áðan yfir barnatímanum með Huldu í fanginu. Þreytt.

12 mars

Fréttir og ekki fréttir

Úbbs ég ruglaðist. Inngöngu- eða ekki inngöngubréfið kemur ekki fyrr en í næstu viku. Mun sumsé eiga magapínu helgi í vændum. O. Sýning Þorvaldar Þorsteinssonar opnar í Göteborgs Konsthallen á morgun. Hef komið við í vikunni og þetta lítur allt mjög ögrandi út. Ég hef alltaf svo miklar áhyggjur af því að fólk fái ekki nógu ítarlegar upplýsingar um á hvaða forsendum það á að skoða myndlist. Ræddi þetta lengi lengi við mjög skemmtilegt fólk í gær og komst að því hvað ég er fordómafull. "Bauð" Ulriku á opnunina (ég fékk helling af boðskortum til að dreifa) og hef miklar áhyggjur af því að hún muni ekki skilja hvað Þorvaldur er að meina með því að stilla upp fullt af óskilamunum í hillur. Hún móðgast kannski (og af hverju finnst mér ég bera einhverja ábyrgð á því ?) ó well....

09 mars

maginn og bréfið

Langt síðan ég hef bloggað enda góður gestur í tölvuherberginu. Mér er illt í maganum. Annað hvort vegna þess að ég er svöng eða vegna þess að ég er svo spennt. Í vikunni býst ég við að fá svar frá skólanum um hvort ég fæ inn í framhaldsnám... Annars er allt í góðu gotti í Grautaborg en allt of kalt.

05 mars

sæll

1) sáuðið síðasta Robinson þáttinn þar sem keppendur þurftu að standa á örmjóum pramma úti í sjó í fjóra klukkutíma? Það er kall úti á róló (glugginn sem ég sit við vísar út á róló) sem stendur laumulega á mjórri spýtu og er að reyna að halda jafnvægi. Barnið hans situr grunlaust í sandkassanum og borðar sand með skóflu. Hann hefur ekki hugmynd um að nokkur sjái sig. Ætli hann sé að hugsa um að sækja um að vera með í næsta Robinson? -Er stjarnan fædd og orðin fertug?....

2) Það er nokkuð ljóst að ég þrái ekkert eins og að sjá Pixies -live- í Kaplakrika 26. maí. Nú reynir á hvort foreldrar mínir eru nógu miklir "curlingforeldrar" til að ég komist í Krikann.....

Börn

Það heitasta í uppeldisumræðunni í Svíþjóð eru svokallaðir "Curlingforeldrar". Nafnið vísar til íþróttar þar sem fólk hleypur á undan kúlu vopnað sópum. Markmiðið er að fá kúluna í mark á stuttum tíma og sá sem sópar best vinnur. Hér getur hvert rykkorn skipt máli.
Curlingforeldrar eru svo "umhyggjusamir" og sópa "lífs"brautina svo vel fyrir börnin sín að þau geta ekki tekist á við hnökra. Í gær skrifaði einhver sálfræðingur í GP þar sem hann varar foreldra við því að stofna "eineltisfélög" í skólanum ef einhverjum er strítt því oft er það eins og að gróðursetja pottablóm með jarðýtu. Barnið verður að þola mótlæti og lærir það ekki öðruvísi en að mæta því "náttúrulega."

03 mars

Orð kvöldsins

Hef aldrei séð Kínverja á skíðum.

02 mars

Aftur sama

Grátur, hiti og kvef

Þessi fyrirsögn segir allt sem segja þarf um daginn í dag. Gaui kom heim í hádeginu og Hulda varð alveg óhuggandi. Ákváðum að fara með hana til læknis. Um leið og hún sá útiskóna tók hún gleði sína á ný. Hulda var því hin kátasta hjá lækninum sem sendi okkur eiginlega öfug út með þetta glaða heilbrigða barn.

Síðan við komum heim hefur hún hins vegar kjökrað samfellt. -Ég er farin að hallast að því að ég sé bara svona leiðinleg mamma. ó well...

01 mars

afmæli

Í dag eru fimmtán ár síðan bjórinn var leyfður á Íslandi og fimmtán ár síðan Halldór Kristján fæddist. Í dag á Hulda líka eins og hálfs árs afmæli.
Ég man hvað ég var lasin vikuna sem Halldór fæddist. Amma Kristín vildi vera góð við mig og keypti rauðan lakkrís sem ég gat ekki með neinu móti komið niður. Amma Dista passaði okkur kvöldið sem Halldór kom í heiminn og reif niður í (minnstu dökkröndóttu Arabia skálina) hálft epli sem ég gat heldur ekki kyngt, Rocky 1 var í sjónvarpinu. Ég hlýt að hafa orðið svona veik af spenningi, þetta er að minnsta kosti vika sem ég man í ótrúlegum smáatriðum.

Hulda fagnar með "hefðbundnum" hætti, 39 stiga hita með tilheyrandi. Hún er farin að segja "kida " (="kisa") og svo getur hún svarað með ótrúlegum búkhljóðum þegar maður spyr (á sænsku eða íslensku nóta bene) hvað grísinn segir !!! Ég held að Hulda hljóti að vera áttunda undur veraldar....







Powered by Blogger