31 október

Karaókí

Fór á ball á föstudaginn þar sem kærastinn hennar Sigrúnar spilaði með hljómsveitinni. Sparaði gjörsamlega alla krafta allan laugardaginn og fór svo í partý um kvöldið sem fór meðal annars fram á karaókí bar. Finnar taka karaókí alvarlega, svona örugglega eitthvað svipað og sumir taka golf alvarlega... (eða kannski ekki). Söngurinn var aukaatriði, orkan sem fólk fékk við að stíga á svið og láta ljós sitt skína var aðalmálið. Það var gaman. Ég söng ekki.

Næsta helgi verður með öðru sniði því þá kemur Hulda í heimsókn!

26 október

Syntax Error

Ó, ég veit ekki af hverju færsla mánudagsins fór ekki á netið... Vegir internetsins eru stundum órannsakanlegir.

Ég hef verið að leita eftir nýjum tölvupóstföngum til að bæta við fréttamannalista Kiasma. Þetta hefur gengið ágætlega með hjálp góðra vina í ólíkum löndum. Ég var nýbúin að bæta svona 100 rússneskum blaðamönnum á listann þegar ég áttaði mig á því að fréttatilkynningin er á 3 blöðum sem þarf að raða saman og hefta... Kláraði 600 eintök og titra í lófunum.

Farið að snjóa í Helsinki og Hulda fer bráðum að koma í heimsókn!!!

24 október

Með grænmetislasagne á mánudegi

Allt í einu varð alveg svakalega kalt í Helsinki. Ég hef upplifað jafn skörp veðurbrigði (fyrir utan Ísland auðvitað).

Fór á vodka barinn sem Kaurismäki bræðurnir eiga á föstudaginn. Ég fékk eitt lítið staup með ódýrum rússneskum vodka en ég sver að þremur dögum síðar finn ég enn fyrir því. Það fer lítið fyrir þessum fræga bar, einn gulnaður miði í glugganum og dregið fyrir með rjómatertu-gluggatjöldum, neonljós á einum vegg og þrír ljótir rússneskir minjagripir á öðrum. Mér skildist að það væri bara seldur rússneskur vodka en ég sá fólk með bjór...

Sá framhaldsmyndina af Dogville, "Manderley" í pínulitlum sal í bíói í bakhúsi. Maðurinn á vélinni reif líka af miðunum (sem voru handskrifaðir nóta bene). Það þarf ekkert að fjölyrða um að þið verðið að sjá þessa mynd. Ég upplifi hana sem sterkari áróður gegn Íraksstríðinu en Farenheit 9/11, -en dæmi nú hver fyrir sig.

Grét yfir 50 ára afmæli Eurovision og kaus þýska lagið. Gaui hringdi frá Svíþjóð og sagði að húsið hefði titrað þegar Waterloo vann....

20 október

Chansons d´amour

Thegar madur er buinn ad senda fimmhundrud tolvuposta sama daginn og farinn ad skrifa "with kind regards, Hlega" er hressandi ad skoda thetta: Tjekk itt out!

19 október

Lýsi

Ég er með verki í liðum og fór í apteeki til að kaupa Lýsi, dýrasta dótið í búðinni. Íslenskt lýsi er mikið auglýst í Helsinki (-en bannað með lögum í Svíþjóð). Lýsistöflur heita reyndar "Omega 3 Forte" í Finnlandi sem virkar eins og segull á alla sem vita eitthvað um heilsubótarefni. Snilldar markaðssetning hjá Lýsi, -bravó.

Gleymdi Sudoku bókinni minni í Gautaborg sem er slæmt á kvöldi eins og í kvöld....

16 október

Gæði

Planið var að fara í sundlaugina við hótel Torni þar sem allir synda naktir. Sigrún var með kvef svo við fórum bara á hótel Torni í staðinn. Útsýnið þaðan er engu líkt, útsýnið af kvennaklósettinu ótrúlegt. Manni líður eins og maður sé að pissa á borgina. Svona "take this!" fílingur. Fórum af Torni á tælenskan veitingastað þar sem maturinn var svo góður að það var eins og hann gæti talað og segði bara sannleikann. Ég gat varla gengið heim mér var svo illt í maganum af ofáti. (sofið) Svo átti ég pantaðan tíma í klippingu (aðeins að særa og aðeins að laga verstu rótina...). Sat í 3 klukkutíma í höndum hárgreiðslukonu sem talaði enga ensku. Núna er hárið á mér samkvæmt gjörsamlega "cutting edge" nýjustu tísku.is. Þaðan í leikfimi. Þaðan á tónleika með kórnum hennar Sigrúnar sem er skipaður einvala liði tónlistarfólks og satt best að segja ótrúlega góður (among the 5 best in Finland). Þau fluttu bara finnsk nútímaverk og mörg tónskáldanna voru í salnum þannig að það ríkti jákvæð spenna, fólk hló og klappaði á vitlausum stöðum, fékk blóm og svona... Svo aftur út að borða með Sigrúnu, í þetta skiptið á "Vespu pizzu".

Svona þýtur tíminn áfram.

13 október

bleikur himinn

Ég vakti hálfa nóttina vegna þess að það stóð par fyrir neðan gluggann minn (ég bý á fimmtu hæð) og reifst með látum um sambandið í á annan klukkutíma, -á ensku. Ég var alveg hissa að enginn skyldi kalla á lögguna en ég ímynda mér að allir í blokkinni hafi verið vakandi og legið í glugganum eins og ég til að fylgjast með.

Held að ég sé búin að rétta úr kútnum í vinnunni í bili að minnsta kosti. Kennarinn minn las rétt úr stöðunni og gaf mér frábærar leiðbeiningar til að takast á við stöðuna. Hún ætlar að láta yfirmanninn skrifa undir starfslýsinguna mína svo ég hafi haldreipi næst þegar hann missir vitið. Þetta er að minnsta kosti mjög lærdómsríkt.

Það reddar geðheilsunni að kunna að skokka og að eiga mp3 spilara. Himinninn var alveg bleikur við sólarlag og algjört logn á strandlengjunni, bjútífúl.

Næst á dagskrá er að hafa samband við öll alþjóðleg flugfélög í millilandaflugi frá Helsinki, Vikingline, tímarit um köfun og tímarit áhugamanna um stjörnuskoðun...

12 október

Ringl

Kennarinn minn kom í heimsókn til mín í dag frá Svíþjóð. Þetta var svona semí-opinber heimsókn á safnið þar sem hún drakk kaffi með mér og yfirmanninum til að fara yfir stöðuna. Yfirmaðurinn gaf okkur klukkutíma. Hún hrærir svo mikla steypu aumingja konan að kennarinn minn varð að spyrja hana ítrekað hvað hún vildi að ég gerði og ég skildi heldur ekki neitt. Þegar við spurðum "hvað viltu að Helga geri?" svaraði hún :"ég er búin að segja það margoft!". Þegar ég fór yfir hvað ég héldi að ég ætti að vera að gera sagði hún: "þú skilur greinilega ekkert!". Þegar ég sagði þá: "viltu útskýra fyrir mér?" svaraði hún: "ég hef ekki tíma!" Svona fór þetta hring eftir hring.... Á endanum fór ég út með kennaranum mínum og hún teiknaði fyrir mig tillögu að einhverju sem ég gæti mögulega gert (hún hélt að hún hefði kannski skilið smá). Hún drakk líka fullt af bjór og var alveg yfir sig hissa á þessarri konu. Þetta er eiginlega ólýsanlegt hvernig hún kemur fram. Ég fór heim, í bað og er núna að velta því fyrir mér hvort þetta sé þess virði, hvort ég eigi að fara héðan og eyða orkunni í annað. Ég er alltaf meira og meira hissa og ringlaðari og ringlaðari. Því miður á ég vond samskipti við fleiri og ég kann ekki að snúa mér út úr þessum hornum öðru vísi en með að verða reið og vonsvikin.

10 október

sjukskreven

Ég var sjukskreven fyrir viku og var bannað (smkv. læknisráði) að vinna við tölvu þangað til í dag. Ég tók fyrstu vél til Gautaborgar eftir þennan úrskurð en núna er ég komin aftur til Helsinki. Ég náði að fara með Huldu í þriggja ára skoðun, í klippingu, í leikfimi (barnagympa), í heimsókn í leikskólann, í afmæli, í veislu, að gefa öndunum brauð og að perla og horfa á Pippi og Emil...

02 október

helga um helgi í Helsinki

Ég fór að gráta af leiðindum í Debenhams fyrr á árinu af því mér finnst svo leiðinlegt að kaupa mér föt. Kom heim í gær með buxur og jakka og bol og peysu alsæl. Allt í einu er ekkert jafn gaman og að versla föt.... Þetta er nottlega rosalega hættulegt sport fyrir fátækan námsmann en ég held þetta sé mikilvæg sálræn breyting þannig að ég reyni að bæla samviskubitið (sem er bullandi kraumandi).







Powered by Blogger