28 janúar

Leikskólinn og flutningar

Hringt í mig í hádeginu í gær og sagt að Hulda væri með hita á leikskólanum. Þegar ég kom og sótti hana var búið að slökkva ljósin og fleiri börn voru á heimleið "með hita." Hulda var reyndar með roða í kinnum en hún var alls ekki heit. Fékk á tilfinninguna að fóstrurnar væru bara komnar með nóg og vildu hætta og fara heim. Æ, stundum er maður bara ekki í stuði til að vinna og vill fara heim...

Vinir okkar Egill og Atli og Halla flytja til Íslands um helgina. Halldór Örn flutti í gær. Gautaborg verður nú tómlegri án þeirra... Höfum erft ótæpilegt magn af viskíflöskum og hveiti í kjölfar flutninganna (sem er doldið gott ef maður er að safna í vínskáp).

25 janúar

Náttúrulögmál?

Það sem er "gott" við að verða ægilega, en óútskýranlega dapur er að þá getur maður líka orðið ægilega, en óútskýranlega glaður. Með það að leiðarljósi tækla ég þessar tímabundnu neikvæðu tilfinningar. Everything is going to be ok.

Nú er komið á hreint að ég fer í starfsþjálfun á Kiasma í Helsinki í haust. Fæ að vinna við þessa sýningu..... -Spennó.

24 janúar

...

og nú er ég alveg ægilega, en óútskýranlega leið. Son'er'da stundum.

21 janúar

Að reka heimili 103

Um klukkan ellefu í gærkvöldi þegar Hulda var sofnuð, og vöknuð aftur og búin að dreifa dótinu sínu um alla stofuna, Gaui lá hálfsofandi fyrir framan sjónvarpið og ég sat við tölvuna, hringdi dyrabjallan. Gaui tók upp dyrasímann og sagði "welcome" og hljóp svo inn í stofu með sínu sérstaka fáti. Við náðum rétt svo að sópa stærstu legókubbunum úr sófanum og slökkva á sjónvarpinu áður en yfirmenn Gaua frá Hollandi stormuðu inn í stofu. Við erum svo heppin að eiga sódastreem tæki svo við gátum boðið upp á sódavatn, svo áttum við líka kiwi í skál inn í eldhúsi sem ég hefði getað skorið niður fyrir þá. Ég fór bara með Huldu að sofa og vona að þessir menn hafi átt eftirminnilega kvöldstund í draslinu í stofunni heima hjá mér. Þetta kennir manni að hafa ALLTAF fínt heima hjá sér og eiga ALLTAF fullan vínskáp og nammi og snakk (eða osta og vínber).

20 janúar

Mannrán !

Framkvæmdarstjóra SIBA (stærsta raftækjaverslunarkeðja Gautaborgar) var rænt á Frigansgötunni á mánudaginn (einmitt götunni sem við búum við og þetta blogg heitir í höfuðið á!). Fjölmiðlar eru allir á öðrum endanum vegna mannránsins og Frigangsgatan er á forsíðu allra dagblaða. Hr.framkvæmdastjóri SIBA er ekki nema 32 ára erfingi raftækjaveldisins sem afi hans stofnaði. Í morgun var sagt að árslaun "milljónamæringsins" nemi um 10.000.000 ísl. króna... -Eru það ekki ca. árslaun kennara á Íslandi?

Þegar ég fór með Huldu á leikskólann í morgun fannst mér allir sem við mættum á leiðinni grunsamlegir mannræningjar. Ég var með augun opin fyrir hugsanlegum vísbendingum og leið eins og Erlendi í bókunum hans Arnalds...

16 janúar

Nýtt líf

Fann skemmtilegustu uppskrift sem ég hef lesið í gær, þegar ég ákvað að læra að gera risotto í eitt skipti fyrir öll. Þessi uppskrift hefur frá og með gærdeginum breytt lífsstíl fjölskyldunnar. >>Risotto Rules (Varúð löng uppskrift) -Ég prentaði þetta út settist upp í sófa og las eins og hverja aðra jólasögu. Í fyrsta sinn á ævinni nýt ég þess að búa til sama flókna matinn tvö kvöld í röð fyrir sama fólkið... Gaui og Hulda sjá fram á að það sama verði í kvöldmatinn (þau kvöld sem ég elda) um ókomna framtíð.

14 janúar

frami?

Ég held að ef ég ætti að keppa í einhverju þá væri það kannski helst í að vera lengi að skrifa ritgerðir. Það er alveg botnlaust hvað ég get setið lengi fyrir framan tölvuskjáinn án þess að snerta lyklaborðið !!!

12 janúar

Tapað - ófundið

Auglýsi hér með eftir hvítri húfu úr flís merktri 66gráður norður. Týndi henni í jólafríinu og það væri gott ef hún fyndist...

Við Hulda höfum átt annasama daga. Þegar við komum heim áðan lagðist hún á magann með kinnina við gólfið og sofnaði. Konurnar á leikskólanum segja að hún tali við þær á sænsku en mig grunar að Hulda noti bara orð sem eru eins í báðum tungumálunum. Ég þurfti reyndar að útskýra fyrir þeim hvað "grýla" þýðir en Hulda tönnlast á grýlu í tíma og ótíma... "Mamma ! Ég vil ekki fara í bað - hvar er grýla?"....

Skólinn minn "er fluttur" á heimsmenningarsafnið í Gautaborg. Þetta gæti ekki verið betra. Dýrk'etta!

08 janúar

svona er nýja árið

Komin "heim" að heiman. Rigning og íslensk lægð yfir Gautaborg. Tókum daginn með trompi og keyptum okkur DVD spilara og armbandsúr handa Gaua... Fæ í magann þegar ég hugsa um öll verkefnin framundan, -eins og allir hinir.







Powered by Blogger