30 apríl

Valborgarmessa

Upp er runninn nýr dagur, Valborgarmessudagur, afmælisdagur Kalla kóngs og eini dagurinn sem suður-Amerísk karnivalsstemmning ríkir í Gautaborg. Í eftirmiðdaginn keyra skreyttir vagnar um borgina. Allir nemendur á BS stigi í skólanum hans Gaua, Chalmers, hafa unnið nótt sem nýtan dag við að byggja vagnana. Í verðlaun er ótakmarkað magn af bjór, bæði á meðan maður byggir og líka þegar keyrt er, en ekki síst eftir aksturinn. Við förum í bæinn og horfum á bílalestina, sem er ekki ósvipuð þeirri sem fornbílaklúbburinn á Íslandi er með á sautjánda júní, nema hérna er lestin töluvert lengri, bílarnir stærri og margir í fullkomlega óökufæru ástandi... Skál ! Og til hamingju Carl Gustav !

29 apríl

skíturinn í skóginum

Fórum með Huldu á Subway í gærkvöldi og áttum svo rólega stund í "pikknikk" í Slottskóginum, umkringd skokkandi Svíum og bjórdrekkandi unglingum. Hulda setti hendurnar í gæsaskít sv o hún mátti ekki setja matinn upp í sig sjálf. Hún er farin að segja "bæ bæ" í miðjum klíðum, svo stendur hún upp og hleypur í burtu... Rosa fyndið. Hún hlær manna hæst.
Gott veður annan daginn í röð, sól og allt.

28 apríl

Nýjasta

Við Gunnar Hrafn og Stína erum að byrja hið sameiginlega blogg og nú þegar eru komnar tvær færslur á síðuna sem ber hið þjála nafn "Brall í bauk" Markmiðið er að skiptast á uppskriftum.

Það er mjög langt síðan ég hef eldað mat. Ég er á einhverju tímabili þar sem mér er lífsins ómögulegt að hræra í potti eða bíða eftir því að ofninn hitni.

Á diskinn minn? "Pakkamatur frá fyrirtækinu Felix, barnamatur í krukku frá Semper og kók." Það er reyndar alveg ótrúlega seðjandi að borða ristað brauð með osti og lesa matreiðslubækur á meðan...

27 apríl

Eins og alltaf

Jæja. Gunnhildur og Magga komu til Gautaborgar um helgina. Vegna veðurs sátum við á kaffihúsum og veitingastöðum eins og við værum að safna áheitum, -en mikið var gaman. Á meðan hefur sitthvað fengið að sitja á hakanum og þess vegna ætla ég að hefja átakið "Helga mín taktu þig nú á 2004" -hugsa samt að ég stofni ekki reikning af því tilefni...

Nýjasta lagið hennar Huldu:
Akta dig, akta dig,
lille snigel, akta dig
annars tar jag dig.
("akta dig" þýðir: "passaðu þig")

23 apríl

Fjórða Langgatan klukkan 10

Ég var búin að skrifa svolítið langan texta um hvernig göngutúrinn á leikskólann hennar Huldu er í annarri vídd en allt annað sem gerist á daginn. Hvað það er einkennilegt að alltaf mætum við sama fólkinu dag eftir dag og nú er ég við það að heilsa póstkonunni með þykku gleraugun sem leggur hjólinu sínu og horfir í augun á mér þetta augnablik á hverjum morgni. Svo skrifaði ég um konurnar í Emmaus Second-hand sem sitja þarna og reykja á hverjum degi rétt fyrir klukkan 10 og um manninn með síða hárið sem gengur á eftir okkur rétt áður en við komum á leikskólann. Hann heldur á bláum plastkassa fyrir flöskur. Og húsvörðurinn í húsinu okkar bíður venjulega í bílnum á meðan við göngum yfir gatnamótin og glápir á okkur. Honum ætla ég ekkert að heilsa. Svo er ég í hinni venjulegu vídd á leiðinni heim því ég horfi frekar niður fyrir mig án barnavagnsins og geng hraðar. En þessu missið þið nottlega af vegna þess að textanum var eytt af BloggerTM!!! (tæknin að stríða okkur....). Demitt.

Hildur frænka er farin að blogga, ég vildi óska að fleiri gerðu það. Hildur á tengil á hægri vængnum.

22 apríl

Gleðilegt sumar !

Gott og gleðilegt sumar !

21 apríl

Skylda

Þessi kona er verkfræðingur í Bagdad. Hún fær greinilega einhvern til að þýða fyrir sig á ensku. Bloggið hennar er auðvitað skyldulesning -a.m.k einu sinni.

Tips

ð skrifar mjög áhugaverðan texta um grænsápu og fleira sem hollt er að vita meira um. Ætla bara að mæla með blogginu hans í dag í staðinn fyrir að "fatta upp á einhverju" sjálf. -Svo getum við rætt þetta síðar.

19 apríl

be be vita lamb

Hulda er með "Be be vita lamb" á heilanum. Þetta byrjaði einhverntíma fyrir páska en núna opnar hún ekki munninn öðruvísi en að það heyrist "Be be vita lamb-har du nagon ull?" í upphafi setningar eða við lok hennar. Áðan greip ég til þess ráðs að syngja "Bí bí og blaka" í hvert sinn sem hún byrjaði á sínu "Be be... " en hún horfði bara á mig eins og ég væri að ruglast og hélt áfram sínu lagi. Ég hélt ég væri að gera henni greiða með því að fá hana að hugsa um aðra laglínu. Hún hlýtur að vera með hausverk.

Í morgun var ljósmyndataka á leikskólanum. Foreldrar voru beðnir um að koma með börnin snemma og sömuleiðis beðnir um að fara strax. Ímynda mér að fóstrurnar hafi þurft að reka mæður vopnaðar hárburstum og teygjum öfugar út í fyrra. Mætti samt her vel snyrtra mæðgna í ganginum á leikskólanum í morgun. Þær voru að skiptast á teygjum og greiða. Það má sko ekki snerta hárið á Huldu með svona glingri, hún rífur það úr sér með látum.
Ég vona að það sjáist í Huldu og að hún sé ekki með snuðið uppi í sér á fyrstu "bekkjarmyndinni"

18 apríl

helga av norden

Nú veit ég ekki hvort ég á að skrifa "þetta er bara ekki minn stíll" eða "ég hefði getað gert þetta sjálf..." en mér var bent á þessa síðu vegna þess að hún heitir www.helga.se. Minnir mig á miðana sem mamma straujaði í fötin mín þegar ég var á leikskóla. Þeir voru einmitt svona rauðir og á þeim stóð Helga.

Fórum í bátsferð um skerjagarðinn með nágrönnunum í gær. Gengum um Sarö og borðuðum nesti í hryssingslegu roki og kulda við sjóinn. Aftur fékk ég mína "ferða-riðu" þannig að dagurinn í dag fór líka í veikindi (þetta er víst einhver vírus sem vill ekki yfirgefa mig) ! En Hulda sá kisu og meme og það er nottlega fyrir öllu.

16 apríl

Bera

Veðrið tók algjöra uppsveiflu og nú er sannkölluð Ibiza stemmning í Grautaborg. Ég (kennarinn) vildi endilega hafa "útitíma" og lét nemendur mína sitja í grasinu með bækurnar. Það var bara notalegt. Jakkinn sem ég keypti í þarsíðustu viku er strax orðinn of heitur.... Maður verður (nei ekki allir, ég verð..)svo þrjóskur varðandi sólina eftir langan vetur, það skal sko hver einasta mínúta nýtt! Svo verð ég eiginlega leið og pirruð á sólinni þegar lengra líður á sumarið. Fæ nóg.

Erum að plana að heimsækja Beru Nordal á vatnslitasafnið á Tjörn um helgina. Býst nú ekkert við því að sjá hana í eigin persónu en maður verður pínu andaktugur við tilhugsunina. Sumsé háleit helgi framundan.

15 apríl

pestariðan

Þessi lestarhristingur hætti ekkert og stigmagnaðist þangað til ég fékk gubbupest. Hulda ældi lungum og lifur á leikskólanum og Gaui staulaðist magaveikur einnig og sótti hana. Oj.

Nú sýnir Hulda hins vegar skýr batamerki, hleypur yfir til nágrannanna og reynir að ná flösku úr vínskápnum þeirra. Ég er enn ekki orðin nógu hress til að drekka vín en er búin að setja "sumarið" út. Tágmotta og tveir tágstólar, borð og sumardúkur. Sko mig.

13 apríl

Páskariðan

Komin heilu og höldnu frá Uppsala. Lestarferðin tók nokkra klukkutíma og nú er ég með svo mikla "lestar-riðu" að mér finnst ég ennþá þeysast um grænar sveitir Svíþjóðar....

Spiluðum Risk hjá Stínu og Pálma, borðuðum villisvín og svo fékk ég að syngja páskadagsmessu í dómkirkjunni í Uppsala sem kórfélagi væri. Sumsé snilld.

08 apríl

Þegar Gautaborgarmaraþonið bjargaði vorinu

Var að fá bréf inn um lúguna þess efnis að Linnéstaden (atvinnurekandinn minn) hefði hætt við fyrirhugaða "vorsýningu" á verkum nemenda í maí. Þessi vorsýning var ákveðin í þarsíðustu viku og mér var skipað í einhverja nefnd til að skipuleggja "ég-veit-ekki-hvað" eða "fyrir-hvern?" Mér líður eins og ég hafi unnið milljón í happdrætti! Hjúkk-itt! Jibbííí....

Ástæðan sem þau gefa upp er sú að sama dag og sýningin átti að vera verður Gautaborgarmaraþonið og allar götur í bænum lokaðar.
Finn hvernig maður getur ekki bara orðið léttari á því að hlaupa. Þessi hlaup hafa þegar létt mína lund all verulega. YESSSS!!! Lifi Gautaborgarmaraþonið !

07 apríl

Allt annað er bara húmbúkk!


You're the United Nations!
Most people think you're ineffective, but you are trying to completely save the world from itself, so there's always going to be a long way to go.  You're always the one trying to get friends to talk to each other, enemies to talk to each other, anyone who can to just talk instead of beating each other about the head and torso.  Sometimes it works and sometimes it doesn't, and you get very schizophrenic as a result.  But your heart is in the right place, and sometimes also in New York.
Take the Country Quiz at the Blue Pyramid

06 apríl

hor

Ég var alveg svívirðilega kærulaus með tíma minn og útlit og lét rangeyga sænska hárgreiðslukonu klippa mig stutt. Ef ykkur vantar að brydda upp á samræðuefni við íslenskar konur búsettar í Svíþjóð klikkar aldrei að tala umsænskar hárgreiðslukonur... -Þær eru fínar. Bara mjög ólíkar þessum heima.

Ég er sumsé bara sæt með stutt hár,(en doldið sænsk).

Svo heitir "hár" einmitt "hor" á sænsku!

04 apríl

flott dagsetning

verð að blogga í dag bara vegna þess að 04.04.04 er svo flott dagsetning. Annars var það ekkert fleira. Rigning og ég er hálf miður mín eitthvað yfir einhverju sem ég veit ekki alveg hvað er... Svona er ég skrýtin !

03 apríl

Blixt í byssó

Yfirmaður vopnaeftirlitsmanna Sameinuðu Þjóðanna í Írak Hans Blixt er mest sjarmerandi Svíi sem ég hef séð. Hann er eitthvað milli sextugs og sjötugs, alltaf glottandi, bæði klár og fyndinn og einhvernveginn þannig að maður bíður alltaf spenntur eftir því sem hann segir næst.
Í gærkvöldi kom hann fram sem gestur í annars leiðinlegum spjallþætti og talaði einlægt um það hvernig er að hitta Bush og Blair. Hann gerir lítið úr Bush, finnst hann strákslegur, rétt vonar að hann sé klárari en Saddam Hussein,hann sagðist eiginlega hafa meiri áhyggjur af gróðurhúsahrifunum en hryðjuverkaógninni...
Í lok þáttarins var leikur þar sem Blixt átti að finna vatsbyssu í stúdíóinu. Það tókst og svo skaut hann úr byssunni á þáttastjórnandann, -eða öfugt,en það skiptir ekki máli. Ég sofnaði með pínulítið meiri gleði í hjarta en venjulega.

01 apríl

aprílgabb

Sat og beið eftir sporvagninum á leið í vinnuna og ákvað að hringja í Gaua út af einhverju. Allt í einu sagði Gaui mér að hann hefði frétt að það ætti að setja upp sýningu á verkum Ólafs Elíassonar í Konsthallen hérna í Gautaborg og að það væri grein um það í Aftonbladet í dag (það er sko algjört sorpblað). Ég stökk af stað og hljóp í sjoppuna hinum megin við sporvagnastöðina kastaði mér fremst í röðina með átta krónur og Aftonbladet og sagðist verða að flýta mér svo mikið (vagninn var alveg að koma). Svo hljóp ég aftur í skýlið og fór að fletta blaðinu.... sem var auðvitað bara fullt af sínu daglega sorpi og ekki eitt einasta orð um neina sýningu neins staðar. 1.apríl !

Annars tókst Gaua að plata alla þá sem hann umgengst dagsdaglega í dag með ótrúlega lúmskum hætti. Það er svo ólíkt honum að koma aftan að fólki svo að hver einasti hljóp apríl með sínum hætti. Yfirmaðurinn hans fékk skilaboð frá manni sem hann hefur verið að reyna að ná í marga mánuði og símanúmer til að hringja í.... (algjört gabb sem hefði getað endað illa).

Fékk þykka uppeldisbók sem síðbúna afmælisgjöf frá ma og pa. Bókin kemur sér mjög vel því fyrir liggur að breyta svefnvenjum Huldu... Meira um það síðar.







Powered by Blogger