31 mars

Í sumar?

Systurnar úr Ystaseli eru fyrirmyndir mínar í mörgu. Ein þeirra sagðist ætla að vera grönn með sítt hár í sumar, mér finnst þetta hressandi markmið. Nú þarf maður bara að ákveða hvernig maður ætlar að vera í sumar.

Hulda hjálpaði mér að elda pasta carbonara í gær. Hún stóð á eldhúskolli við borðið og hellti rjómanum og hrærði og smakkaði rosalega oft. "Mamma, hún er bara gott!" Hulda gefst upp þegar kemur að því að greina í kyn, hún segir bara "hún", svo segir hún: "ég kemur!"

29 mars

popppunktur

Ég hef það til siðs að frelsast til spils um páskana. Í fyrra lærði ég Risk, í ár uppgötvaði ég leyndardóma Popppunkts. Jamm... Nú mega menn fara að vara sig. Endurnærandi að hitta gott fólk á austurströndinni og sömuleiðis endurnærandi að finna fyrir vorinu. Við skiptum yfir í sumartímann um helgina þannig að nú er bjart frá morgni til kvölds.

23 mars

Meir

Sko. Hvað er þetta með afmæli og viðkvæmni? Af hverju titra ég á tuttuguogáttaára afmælinu mínu for crying out loud? Ætli eðlisaldur minn liggi ekki einhvers staðar á milli 13 og 15, ögrun að vera unglingur í 28 ára líkama.

Þoka. Lét laga hjólið mitt í dag. Takk fyrir kveðjurnar. Nú ætlum við Hulda að fara að pakka, Stokkhólmur á morgun...

21 mars

Allow yourself to trust joy and embrace it

Það gleymdist alveg að segja mér að Úlfarsfell væri við endann á Royal Mile í Edinborg. Ég vissi heldur ekki að það yrði sól og tuttugu stiga hiti, frábær matur og að Glasgow væri svona sjarmerandi borg. Tvisvar sinnum tók ég andköf af einskærri hrifningu. Fyrirlestrarnir voru líka á heimsmælikvarða. Mig langar strax aftur. Loved itt!

15 mars

Ísbjörninn í garðinum

Gunnhildur kom í heimsókn um helgina og Hildur í gær þannig að það ríkir ekki hversdagur á Frigangsgötunni þótt árstíð og snjóar eigi að benda til annars. Mér er farið að líða eins og börnunum í vetrarríkinu í Narníu bókunum. Hulda, sem enn er heima með hlaupabólu, bað mig um að líta eftir ísbjörnum í garðinum.

Fer í skólaferðalag til Skotlands á morgun ! Loksins fer ég til Glasgow.

11 mars

Á hnén í sálinni

Maður fer svo innilega á hnén í sálinni þegar maður sækir um vinnu. Atvinnurekendur auglýsa eftir súperman og hilary clinton í hverja stöðu en svo getur þetta lið ekki einu sinni svarað tölvupósti þar sem það situr á sínum feitu r... . Nú er ég búin að þýða CVið mitt á íslensku og er tilbúin að sitja sem lifandi þjóðbúningardúkka á Árbæjarsafni, þrífa styttur, hella upp á kaffi en ekki síst svara tölvupósti. Svo lengi sem ég á sumar á safni fyrir salti í grautinn demitt ! (PS. ég held á veiku barni í fanginu).

08 mars

kláðastillandi

Hulda litla er þannig útlítandi að ég er með fiðrildi í maganum og kikna í hnjánum þegar ég horfi á hana. Greyið litla. Gaui fór með hana til læknis í morgun sem ávísaði deyfandi og kláðastillandi, þríhyrningsmerkt lyf. Nú mókir hún eins og lítill dalmatíuhundur og urrar þegar maður kemur of nálægt.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að nú er komið vor.

06 mars

Hitamunur

Nú er fimmtíu gráðu hitamunur á frostinu úti og líkama Huldu sem vaknaði með hlaupabólu í morgun ! Nú liggur hún út af og dormar anginn litli, smám saman alsett rauðum bólum.

04 mars

Allt að gerast

nýjar myndir komnar á netið. -10 annan daginn í röð og ég þrái vor.

02 mars

Tréengillinn

Í gærkvöldi skipulagði ég svokallað "Object-handling session" fyrir verkefni í skólanum og bauð nágrönnum mínum. Í klukkutíma ræddum við tréengilinn minn og þau fengu föndurverkefnið að teikna, klippa og líma svipaða fígúru. Þetta gekk ekkert rosalega vel, miklu verr en ég bjóst við. Nú sit ég við tölvuna og er að reyna að skrifa skýrslu um the "object-handling session." Mér finnst heillandi hvað engillinn (sem fjölskylda Húgó Þórissonar fjölskylduráðgjafi föndraði fyrir tíu árum) hefur fengið mikilvægt hlutverk í lífi mínu þessa dagana.

Því miður er ég næstum því komin að þeirri niðurstöðu að það þýði ekkert að bjóða fjölskyldum upp á föndur á söfnum.... Mjög sorglegt.

01 mars

Bjórdagurinn!

Í dag eru sextán ár síðan bjórinn var leyfður á Íslandi og jafn langt síðan Halldór Kristján fæddist. -Til hamingju með afmælið !!!

Hulda fór í klippingu í morgun. Hún var vel undirbúin, vissi nákvæmlega hvað var um að vera og stóð sig eins og hetja. Nú er hún komin með sumarklippinguna og smellir montin í góm þótt það sé enn allt á kafi í snjó....







Powered by Blogger