28 júní

Heim

Ég keypti sanseraðan sundbol handa Huldu því nú erum við á leiðinni "heim." Nú má rokið fara til Svíþjóðar mín vegna.

Ég á frekar von á því að ég muni ekki blogga næst fyrr en í ágúst.

24 júní

midsommar

Nú rignir eldi og brennisteini frá Malmö til Riksgransen í norðri og mun gera það næstu daga. Á morgun verður haldið upp á midsommar í Svíþjóð. Sú hátíð er næst á eftir jólunum í mikilvægi og mikil pressa á fólki að kaupa síld og bjór og tína blóm. Ég hef aldrei verið hérna á þessum árstíma og mér finnst fjölskyldan mín ekkert vera verri þótt okkur hafi ekki verið boðið að dansa í kringum blómskrídda stöng neins staðar. Alveg þangað til í gær hélt ég að hápunktur midsommar væri þegar kveikt væri í blómunum og að fólk ætti að dansa í kringum bálið. But I was wrong...

21 júní

Fólk vill ekki frelsi heldur öryggi

Ég fékk pláss ! Í ágúst fer ég í mastersnám í "International museum studies"

19 júní

júníkvef

Rigning úti og við erum öll með hita og kvef. Það er sumsé mjög notaleg stemmning á Frigangsgötunni. Horfðum á heilan fótboltaleik í gærkvöldi og fundum hvernig blokkin skalf þegar Zlatan skoraði markið gegn Ítölum ! Ég held ég geti horft á annan leik í þessari keppni -og þá er nú mikið sagt og svei mér þá...

Ég velti því lengi fyrir mér í dag hvernig á því stendur að mér tókst að horfa á leikinn án þess að fá hroll. Mig grunar að óþol mitt gagnvart íþróttinni eigi rætur sínar að rekja til Bjarna Fel og ensku knattspyrnunnar á laugardögum. Bjarni Fel er maður sem ég elska að hata. En nú er svo langt um liðið að mér er hreinlega hætt að detta hann í hug (og þetta lím-heila stef ensku knattspyrnuþáttanna du du du du du du du du du...du du duruddu du) og þess vegna er mér eiginlega batnað óþolið. Talaði við tvær konur um leikinn í dag sem báðar hafa óvænt áhuga á knattspyrnu og síðast en ekki síst var það kona sem lýsti Svíþjóð-Ítalía í sænska ríkissjónvarpinu ! Sko!

16 júní

utflygt

Klukkan tíu í morgun fórum við Hulda "í ferðalag" með leikskólanum. Farið var sem leið liggur í Slottskogen sem liggur í um það bil 10 mínútna göngufjarlægð frá leikskólanum. Krakkarnir höfðu bakað "buller" í gær og svo var saft með. Elstu börnin á deildinni eru að verða 3 ára þannig að samskiptin þeirra á milli eru mjög frumstæð; "ég á" "mamma" og "mitt". En það var glampandi sól og fuglasöngur í lofti og þó að Hulda hafi mest verið í fanginu á mömmu sinni þá var þetta hið fullkomna fyrsta skólaferðalag.

14 júní

sinfóníuhljómsveit, rækjur og fleira

Langar að benda ykkur á að hér er allt að verða vitlaust og nú get ég bara ekki beðið eftir að borða íslenskan fisk á Íslandi. Hér er kjúklingur og hakk til skiptis í matinn kvöld eftir kvöld (þegar við erum ekki í einhverjum geggjuðum matarboðum).

Sumarið er algjörlega komið og ég er eldrauð eftir úti-sinfóníutónleikana sem voru í Slottskogen í gær. Nýr stjórnandi frá einhverju þýskumælandi landi lét sig ekki um að spila þung verk í moll fyrir mörg þúsund léttleikaleitandi, sólsleikjandi Svía. Til þess þarf hugrekki.

En það var gott að liggja í grasinu og gera ekki neitt, sérstaklega í ljósi föstudagskvöldsins sem kallaði á tvo heila daga í endurheimtingu sjálfsins. Halldór Örn kollegi Gaua varði doktorsritgerðina sína og bauð upp á ótrúlega góðan mat og ókeypis áfengi (sem hann keypti í Danmörku að sjálfsögðu).

Í millitíðinni fór ég á tónleika með Mosfellskórnum sem söng létt dægurlög við undirleik Yamaha skemmtara í Skars-kirkju. Það toppar þetta ekkert.

07 júní

svíþjóð

Við tókum Svíþjóð með trompi um helgina og borðuðum samtals 40 kjötbollur með sultu, þar af helminginn í mekka kjötbollumenningarinnar: IKEA. Gaman að hitta Eyjó og Kristján í Liseberg og vera þar í heilan dag í sól, fara í klessubílana og leyfa Huldu að fara marga hringi í karúselinu. Komast að því eftir miklar spekúlasjónir með foreldrum á róló að ástæðan fyrir því að það var flaggað er sú að 6.júní er þjóðhátíðardagur Svíþjóðar. Það hefur aldrei verið haldið upp á hann.
-En við gerðum það nottlega óafvitandi með okkar hætti.

Til hamingju með afmælið Gerður og Ásgeir!

04 júní

Gestur

Í Íslandsæði mínu stillti ég á rás 2 í morgun (í gegnum tölvuna). Gestur Einar við hljóðnemann að lesa upp úr flugufréttum !! Langur lestur um að "Bubbi Morteins hafi nú náð átta silungum á minnstu gerð af einhverri x gerð af flugu um daginn." Svo flettir hann blaðinu svo heyrist og heldur áfram að lesa eitthvað alveg óskiljanlegt um fluguveiði. Loksins viðurkennir Gestur að hann skilji nú eiginlega ekkert í þessu sjálfur eða viti neitt um flugur, -"-þetta er nú kannski bara fyrir þá sem hafa mikla þekkingu á svona veiðistöngum -en þetta er nú bara stórskemmtilegt." Svo heldur hann áfram að humma svona létt í morgunsárið alveg eins og hann sé ennþá í Stellu í Orlofi. -Djöfuls bull. Hann á bara að vera við míkrófóninn í samkomusalnum á Grund. Fyrir hvern er þetta stórfurðulega útvarpsefni? Hvar er Þorgerður Katrín og hvert fara afnotagjöldin?

03 júní

iceland

dadadadadaaddaa dada daaa da.... -hef setið með tólið við eyrað í allan morgun og hlustað á iceland express lagið. Ef ég næ sambandi við lifandi manneskju hjá því fyrirtæki fyrir morgundaginn komum við mæðgur til Íslands í lok mánaðar ! Jibbíí!!

01 júní

Úrslit !

Byrja nottlega á því að þakka ótrúlega mikla og góða þátttöku. Átakanafnagift er kapítuli útaf fyrir sig, -átakalega vanmetinn kapítuli. Kannski fær hann samt uppreisn æru með tillögunni sem vann miðbæjarsamkeppnina sem Landsbankinn stóð fyrir um daginn. Vann ekki "átakanafngiftin" "Það sem er gott fyrir bæjarins bestu er gott fyrir miðbæinn" - Það er auðvitað hægt að snúa þessu yfir í "það sem er nógu gott fyrir bæjarins bestu er gott fyrir mig" eða bara "ein með öllu 2004"

En "Helga 2004" er nafnið, það nær alveg fullkomlega yfir viðfangsefnið. Nú er bara eitt eftir -að snúa sér að innihaldi átaksins...

Las um helgina bókina 39 þrep á leið til glötunar eftir Eirík Guðmundsson. Þar segir höfundur frá útvarpsþætti þar sem viðmælendur voru beðnir um að gera lista yfir 50 atriði sem þeir vildu gera áður en ævinni lyki. Það þarf ekkert að vera endanlegur listi en mér finnst aðferðin (svona viljastyrkslega séð) heillandi.

Síðasta messa vetrarins í gær. Séra Ágúst messaði í einn og hálfan klukkutíma yfir einum fermingardreng og óþolinmóðum kirkjugestum. Kórinn söng Hallelúja. Og nú er að bresta á með ótrúlega góðu veðri og sumarfríi...







Powered by Blogger