390 milljarðar króna
Stofnunin Art Loss Register áætlar að listaverk, sem samtals séu metin á jafnvirði 390 milljarða króna, hafi lent í klónum á glæpamönnum á síðustu öld. Alþjóðalögreglan Interpol segir að listaverkaþjófnaður sé fjórða helsta glæpastarfsemin á eftir fíkniefnasölu, peningaþvætti og vopnasmygli.
Meðal nýlegra listaverkarána, þar sem verkin hafa ekki fundist aftur, má nefna eftirfarandi:
19. maí 2004
Pompidou listasafnið tilkynnir að málverkið Nature Morte a la Charlotte, eftir Pablo Picasson, hafi horfið af verkstæði safnsins en verkið er metið á jafnvirði um 250 milljónir króna.
27. ágúst 2003
Þjófar, dulbúnir sem ferðamenn, yfirbuga vörð í Drumlanrig kastala í Skotlandi og hafa á brott með sér verk eftir Leonardo da Vinci, sem metið er á allt að 5,8 milljarða króna.
20. júní 2003
Þjófar grafa sig inn í ríkislistasafn Paragvæ og stela tugum málverka. Lögregla segir að um 2 mánuði hafi tekið að grafa göngin inn í safnið.
22. desember 2000
Þrír vopnaðir og grímuklæddir menn ræna tveimur málverkum eftir Renoir og einu verki eftir Rembrandt úr sænska ríkislistasafninu og komast undan á hraðbáti. Lögregla fann síðar aðra Renoir-myndina fyrir tilviljun en hinna málverkanna er enn saknað.
18. mars 1990
Tveir menn, dulbúnir sem lögreglumenn, fremja stærsta listaverkarán sögunnar í Isabella Stewart Gardner í Boston í Bandaríkjunum. Þeir yfirbuguðu verði og höfðu á brott með sér málverk eftir Rembrandt, Vermeer, Manet og Degas sem samtals voru metin á um 300 milljónir dala, jafnvirði nærri 22 milljarða króna.