26 febrúar

Júgóslavneskt svínakjöt og sólskinskórinn

Ég get ekki hætt að hugsa um þennan barnakór, Sólskinskórinn. Celine Dion var örugglega ennþá á leikskóla einhvers staðar í frönskumælandi Kanada þegar Sólskinskórinn söng "Sól sól skín á mig" og Soffía og Anna Sigga sungu "Komdu niður". Við höfum hlustað á stóru barnaplötuna 3 svona fimmhundruð þúsund sinnum upp á síðkastið og alltaf stingur þessi agressívi söngur mig. Ég vissi varla fyrr en um fjögurhundruð þúsundustu hlustun að það væri yfir höfuð lengri texti við "sól sól skín á mig" annar en viðlagið. En það heyrist bara (fyrir utan viðlagið góða) "blómgarða bala - sumar(-...) dægrin löng..." -restin af textanum kafnar í ótrúlega hröðum (og má ég segja tilfinningalausum) söngnum. Ætli þetta sé vondri upptökutækni að kenna -eða einfaldlega skorti á væmni?

Annars fór Gaui með samstarfsfélögum sínum út að borða í hádeginu í gær með þeim afleiðingum að sumir voru óvinnufærir langt fram eftir deginum í dag. Júgóslavneska svínakjötinu var sumsé skilað með látum heima hjá fleirum en mér..... -Þarf ég að segja meira? -

25 febrúar

Íbúðin

Við leigjum íbúðina sem við búum í með húsgögnum. Fyrst þegar ég kom hingað inn fannst mér spennandi að lifa "annars manns lífi" -sofa í annars manns rúmi og drekka úr annars manns kaffibolla, -lesa jafnvel bækurnar hans. Sérstaklega fannst mér spennandi að búa í íbúð praktíserandi búddista með fullt af bókum um austurlensk trúarbrögð. Ég hafði aðallega áhyggjur af því að við ættum eftir að drepa allar plönturnar þennan stutta tíma sem við áttum að fá að búa í íbúðinni.
Eftir eitt og hálft ár hafa flestar plöntur lifað okkur af (það drápust reyndar nokkrar þegar ég var á fæðingardeildinni....). Hins vegar hefur okkar líf smám saman náð yfirhöndinni og nú er geymslan svo full að Gaui fékk hláturskast þegar hann opnaði þangað inn í gærkvöldi. Svo þegar Hulda fékk æði fyrir að tæta úr hillum bjó ég til tvöfaldar raðir efst í bókahillurnar þar sem bækur um austurlensk trúarbrögð eru innst, -bakvið bækurnar okkar...

Annars er allt góðu gotti svona almennt.

23 febrúar

Ísland er fámennt alls staðar

Í síðustu viku rakst ég á þrjá Íslendinga úti á götu hérna í Gautaborg sem ég rétt kannast við en myndi kannski ekki heilsa, hvorki heima né hér. Mér finnst það bara notalegt að setjast í sporvagninn og geta hugsað um manneskjuna sem situr fyrir framan mig "æ já þessi... -var hún ekki með mér í Háskólanum?...." -og gera svo ekki meira í því. Ísland er alls staðar fámennt.

20 febrúar

Náðargáfan málskilningur

Svíar skilja upp til hópa ekki eitt aukatekið orð í íslensku berist hún þeim til eyrna. Velti því fyrir mér hvort áralöng dönskukennsla geri það að verkum að Íslendingar eiga auðveldara með að skilja sænsku. Maður reynir að minnsta kosti að nota eyrun og oft getur maður greint orðaskil með því að hafa íslenskuna til hliðsjónar. Dæmi: "Kom hit!" = "Komdu hingað!" eða "göra" = "gera".

Fóstran hennar Huldu sagðist ekki treysta sér til að vera ein með hana í gærmorgun vegna þess að hún skildi ekki tungumálið sem Hulda talar. Fóstran hélt að barnið talaði íslensku. Vá hvað ég er ánægð með hvað fólk heldur að dóttir mín sé bráðþroska og vel gefin! -og vá hvað mér finnst skrýtið að fólk átti sig ekki á því að að Hulda samkjaftar ekki á sínu eigin tungumáli sem enginn skilur (henni til ómældrar gremju).

Hef rekið mig á það að sænskir viðmælendur mínir eiga það til að píra augun þegar ég tjái mig af einskærri áreynslu við að reyna að skilja hvað ég segi. Ég hef reyndar heyrt fleiri Íslendinga lýsa furðu sinni yfir því hvað sænskumælandi fólk á erfitt með að skilja þá sem ekki tala nákvæmlega rétt mál.

-Og þá hlýtur mér að líða pínulítið eins og Huldu líður þegar hún er að reyna að segja okkur frá á sinni óskiljanlegu Huldísku...

18 febrúar

Heja Sverige

Gólfkuldinn á nýja leikskólanum hennar Huldu stendur hjarta mínu næst í dag. Ég verð bara að senda hana í þykkum sokkum eða mokkasíum þangað.... Annars gengur "inskolningen" (aðlögunin) bara sultu vel.

Við Ullrika (nágranni minn) förum saman í leikfimi tvisvar í viku og þar finnst mér ég alltaf vera komin í einhverskonar æfingar- og herbúðir eingöngu ætlaðar fyrir Svía, eitthvað svona batterí til að styrkja þjóðina innbyrðis. Tónlistin sem hljómar í salnum er ýmist vinningslög Svía í Eurovision eða hvatningarlög fyrir sænsku landsliðin í handbolta, fótbolta eða íshokkí. Konurnar eflast alveg ótrúlega við að hoppa í takt við textann "Vi er gula vi er bla" og svo klappa þær hvorri annarri á bakið -svona hvetjandi klapp. Ég þori ekki að segja neitt til þess að það komist ekki upp hverrar þjóðar ég er. Yrði örugglega rekin út.

Spurning hvort ég geti miðlað til ykkar eitthverjum leyndarmálum um hvernig þessi lið hafa náð árangri í keppnum gegn Íslendingum frá örófi alda.

16 febrúar

Stockholm

Ég er alveg blogg-andlaus eftir verulega vel heppnaða Stokkhólmsferð.

12 febrúar

Fegurðin á undanhaldi

Keppnin um ungfrú Svíþjóð verður ekki haldin í ár. Þessi gripasýning hefur orðið vandræðalegri og vandræðalegri með hverju árinu og nú er sumsé svo komið að það þorir engin sjónvarpstöð að sýna hana. Ekki nóg með að áhorfið hafi minnkað, kröfurnar hafi verið orðnar ruglingslegar með IQ mælingum, heldur þarf líka að greiða lúkkinu sem dómurunum geðjast best að 200.000 (ísl.) í mánaðarlaun, útvega farsíma og skrifstofu. Reyndar kemur fram í fréttinni að Svíar hafi ekki unnið Miss Universe nema 3. sinnum síðan 1949 og þá veltir maður því fyrir sér hvort þeir séu bara svona tapsárir..... Allavega -Yess nú eigum við meiri sjéns á að vinna !!!

Við Hulda ætlum til Stokkhólms á morgun að hitta Möggu. Hlakka til.

10 febrúar

Vafasamur gestgjafi

Kóngurinn í Svíþjóð er í öfundsverðri stöðu. Það er þverpólitískt samþykki um að hann megi ekki tjá sig um stjórnmál á opinberum vettvangi.... -og það er sko ekki bara "af því bara"
Í gær hélt hann blaðamannafund þar sem hann sagði frá nýafstöðnu ferðalagi sínu til eyjarinnar Brunei. Honum fannst alveg frábært hvað einræðisherrann þar er í góðu sambandi við þjóð sína, býður henni t.d. allri í brunch við valin tækifæri....
Þegar við vöknuðum í morgun við útvarpsvekjaraklukkuna fannst mér skömmin næstum því áþreifanleg. Málsmetandi pólitíkusar hér í landi fela andlit sitt í höndum sér og hugsa "djísös kræst", allir sem einn.

09 febrúar

vaxdúkahjartsláttur

Ég er sko alveg pottþétt enginn veðurfræðingur í mér. Eftir yfirlýsingar um vorkomu hefur mælirinn farið hressilega niður fyrir frostmark og jörðin er alhvít.

Fór á mína fyrstu hljómsveitaræfingu á laugardaginn. Ég var beðin um að syngja rokk (ekki frumsamið) með eðlisfræði- og verkfræðibandinu (þeir koma hvergi fram og spila bara ánægjunnar vegna). Þóttist vera óhult í gluggalausum kjallara en ég kiknaði undan álaginu og hjalaði bara pínulítið í míkrófóninn.... Aumingi. Ég skil hvers vegna rokkurum hættir til að hella sér út í áfengisneyslu og vímuefnaneyslu.

Kellingin í hjarta mínu dró mig í dýrustu búðina í heimi þar sem ég keypti dýrasta vaxdúk sem er framleiddur í veröldinni. Er enn með hjartslátt eftir þau kaup og veit ekki hvort að muni hægjast á honum fyrr en undir lok vikunnar....

Er með stillt á rás 2 og ætla að hlusta á Svandísi og Odd .

06 febrúar

Um daginn og veginn...

Langt síðan ég hef bloggað um daginn og veginn.

Hulda er veik. Hún var send heim með leigubíl frá Ullu dagmömmu í fyrradag og hefur verið í fanginu á mömmu sinni síðan. Kellingaranginn. Ég þigg ráðleggingar í sambandi við hitalækkandi meðul handa 16 mánaða...

Það er komin pínulítil vorlykt. Snjórinn er farinn og krakkarnir hérna úti á leikvellinum fyrir framan eru ekki lengur klædd eins og geimfarar.

Í næstu viku verður "sportlov". Þá er frí í skólum og allir sem vettlingi geta valdið fara á skíði. Í Svíþjóð þykir mjög fínt að stunda skíðaíþróttina. Ég er að hugsa um að vera heima og leika með Huldu. Svo á ég pantaðan tíma í klippingu og svona....

Gaui er að verða búinn að lesa Bóksalan í Kabúl fyrir mig. Sjálf er ég að lesa bók sem heitir 28 timmar pa ett dygn eða eitthvað og fjallar um breska tveggja barna móður sem vinnur svona dæmigert Wall Street starf. Þessar bækur gerast á svipuðum tíma en gætu ekki verið ólíkari.

Já og svo er Oddur frændi að bjóða sig fram sem formann Ungra Vinstri Grænna....

04 febrúar

"Nýjustu fréttir?"

Ég er löngu löngu hætt að nota hotmailið. Það fylltist alltaf af misjöfnum tilboðum um ódýr háreyðingarkrem og háskólagráður - oft í einum og sama póstinum.... - . Skoðaði hotmailið samt áðan og fann boð í partý -sem var haldið um jólin. Fann fleiri tölvupósta frá skemmtilegu fólki sem ég hefði viljað lesa og svara á sínum tíma.

Blogg dagsins er sumsé tileinkað þeim sem hafa í hyggju að senda mér tölvupóst, í dag eða um ókomna framtíð og boðskapurinn er þessi: helga.lara@comhem.se

Lifið heil.

02 febrúar

Móna Lísa

Þetta finnst mér sniðugt !

01 febrúar

Óveður

Alveg ótrúlegt hvað ég hef oft lesið um meint óveður í Svíþjóð á mbl.is síðustu tvo vetur. Hér í Gautaborg er rafmagn, ca 5 cm jafnfallinn snjór og heiðskírt svo langt sem augað eygir. Bílinn sem sést á mynd mbl.is hefur bara keyrt inn í skafl á stóru bílastæði.Powered by Blogger